Fótbolti

Selja miðana á Íslandsleikinn alls ekki ódýrt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson í hóp íslenskra stuðningsmanna á EM 2016.
Gylfi Þór Sigurðsson í hóp íslenskra stuðningsmanna á EM 2016. Vísir/Getty
Síðasti möguleiki fyrir íslensku landsliðsmennina að vinna sér sæti í HM-hópnum með góðri frammistöðu í vináttulandsleikjum verður í tveimur leikjum íslenska landsliðsins í Bandaríkjunum í lok mars.

Íslenska liðið mætir þá Mexíkó og Peru en þetta verða líka fyrstu landsleikir ársins 2018 þar sem Ísland mætir með fullt lið.

Ticketmaster sér um sölu miðana á vináttulandsleik íslenska karlalandsliðsins í fótbolta á móti Perú sem fer fram í New Jersey í lok mánaðarins.

Hafliði Breiðfjörð á vefsíðunni fótbolti.net hefur kannað miðaverð á leikinn og komst að því að þessi miðar í boði á leikinn eru rándýrir.

Leikur Íslands og Perú fer fram á Red Bull Arena í New Jersey en þessi völlur tekur „bara“ 25 þúsund manns í sæti.

Ég segi bara af því að fjórum dögum fyrr spilar íslenska landsliðið á Levi's Stadium í San Fransisco sem tekur 68.500 manns í sæti.

Ódýrasti miðinn á leikinn á móti Perú kostar 171 dollara eða 18 þúsund íslenskar. Það er miði fyrir aftan annað markið en það kostar 350 dollara, eða 36 þúsund krónur að fá miða við miðlínu vallarins.

Miðarnir á Mexíkó leikinn í San Fransisco eru mun ódýrari en þar er ódýrasti miðinn á 40 dollara eða rétt rúmlega fjögur þúsund krónur. Miðar í VIP sæti á þeim leik kosta 300 dollara eða rúmlega 30 þúsund krónur.

Þetta eru síðustu æfingaleikir íslenska landsliðsins áður en landsliðsþjálfarinn Heimir Hallgrímsson velur 23 manna leikmannahópurinn sinn fyrir HM í Rússlandi í sumar. Mikilvægi leikjanna er því mikið fyrir leikmenn sem eru á brúninni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×