Fótbolti

Jafntefli gegn Evrópumeisturunum

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Sara Björk Gunarsdóttir í baráttunni í leiknum gegn Japan á föstudaginn
Sara Björk Gunarsdóttir í baráttunni í leiknum gegn Japan á föstudaginn Vísir/EPA
Íslenska kvennalandsliðið í fótbolta gerði markalaust jafntefli við Evrópumeistara Hollands í síðasta leik liðsins í riðlakeppni Algarve mótsins í Portúgal í dag.

Freyr Alexandersson, landsliðsþjálfari, stillti upp sterku liði í dag og voru margir af reynslumestu leikmönnum Íslands í liðinu. Hollendingar voru sterkari aðilinn mest allan leikinn en íslensku stelpurnar mættu vel skipulagðar til leiks og vörðust mjög vel.

Lítið var um skot á markið í leiknum, Hollendingar komust næst því að skora þegar skalli Lineth Beerensteyn hafnaði í stönginni á íslenska markinu á 66. mínútu.

Íslensku stelpurnar eru því búnar að gera jafntefli við bæði liðin sem spiluðu til úrlita á Evrópumótinu síðasta sumar en þær töpuðu þriðja leiknum gegn Japan.

Japan vann 2-0 sigur á Danmörku á sama tíma og leikur Íslands og Hollands fór fram. Hollendingar, sem höfðu unnið báða leiki sína til þessa, vinna riðilinn með 7 stig. Japan endar með 6 stig, Ísland 2 og Danir lenda í síðasta sætinu með 1 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×