Innlent

Reyndi að ræna töskum á BSÍ

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Ekki fylgir sögunni hvort einhver hafi fengið á kjammann á BSÍ í nótt.
Ekki fylgir sögunni hvort einhver hafi fengið á kjammann á BSÍ í nótt. Vísir/Vilhelm
Lögreglan handtók erlendan karlmann á umferðarmiðstöðinni BSÍ í nótt sem reynt hafði að taka ferðatöskur ófrjálsri hendi. Maðurinn hafði engin skilríki með sér að sögn lögreglunnar og ekki bætti ástand hans úr skák, hann er sagður hafa verið nokkuð ölvaður þegar reynt var að ræða við hann. Ekkert vitrænt hafi hins vegar fengist upp úr honum og hefur hann því mátt sofa úr sér vímuna í fangageymslu lögreglunnar.

Þá var tilkynnt um líkamsárás við veitingastað í Bæjarlind í Kópavogi á sjöunda tímanum í gærkvöldi. Þar eru þrír menn sagðir hafa ráðist að einum og veitt honum áverka í andlitið. Málið er sagt vera til rannsóknar en ekki fylgir sögunni hvernig þolandanum heilsast eða hvort vitað sé um hvaða þrjá menn ræðir.

Það var svo í Breiðholti sem lögreglan handtók konu sem var í annarlegu ástandi. Hún er talin hafa skemmt nokkrar bifreiðar sem stóðu við Jafnasel og var hún flutt í fangageymslu meðan mál hennar er til rannsóknar.

Fjölmargir ökumenn voru jafnframt stöðvaðir í nótt grunaðir um að hafa ekið undir áhrifum hvers kyns vímuefna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×