Erlent

Rændu hálfum milljarði á örfáum mínútum

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Flugvélin var á leið til Sviss.
Flugvélin var á leið til Sviss. Vísir/Afp
Á rúmum sex mínútum tókst hópi þjófa í Brasilíu að stela 5 milljónum bandaríkjadala, rúmlega hálfum milljarði íslenskra króna, sem hafði verið um borð í þotu Lufthansa.

Flugvélin stóð á einum helsta fraktflugvelli landsins, skammt frá borginni Sao Paulo, þegar þjófarnir létu til skara skríða. Þeir höfðu merkt pallbifreið sem þeir óku með límmiðum öryggisfyrirtækisins sem þjónustar flugvöllinn og komust þannig nokkuð óséðir alveg upp að vélinni, sem var á leiðinni til Sviss.

Þegar þeir voru komnir upp að vélinni yfirbuguðu þeir öryggisverðina sem fylgdust grannt með farminum og stungu því næst af. Hvorki tangur né tetur hefur sést til ræningjanna síðan og hefur enginn verið handtekinn vegna málsins.

Þjófnaður og rán á hvers kyns frakt hefur færst í aukana í Brasilíu á undanförnum árum en að sögn AFP fréttastofunnar eru það þó oftar flutningabílar sem verða fyrir barðinu á ræningjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×