Innlent

Fleiri skulda í íbúð sinni en í nágrannalöndunum

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Hlutfallslega flestar íbúðir eru í útleigu í Reykjanesbæ og Akureyri.
Hlutfallslega flestar íbúðir eru í útleigu í Reykjanesbæ og Akureyri. VÍSIR/STEFÁN
Algengara er að heimili skuldi í íbúð sinni hér á landi en í helstu nágrannalöndum okkar ef marka má nýja mánaðarskýrslu Íbúðarlánasjóðs. Í skýrslunni kemur fram að í nágrannalöndunum er ýmist algengara að heimili séu á leigumarkaði eða eigi íbúð sína skuldlaust heldur en á Íslandi.

Þannig bjuggu 63% íslenskra heimila í eigin íbúð með áhvílandi húsnæðisláni árið 2015 en í Evrópusambandinu var hlutfallið um 26%. Um 15 prósent íslenskra heimila áttu íbúð sína skuldlaust árið 2015, en í Evrópusambandinu var þetta hlutfall þrefalt hærra, eða um 43%.

Meðal annars efnis í skýrslunni eru niðurstöður sem benda til þess að ásett verð íbúða á höfuðborgarsvæðinu, þ.e. það verð sem kemur fram í auglýsingum, hafi hækkað um 1,0% í janúar. Það er meiri hækkun heldur en mánuðina á undan en þó minni en í bæjarfélögum í nágrenni höfuðborgarsvæðisins. Þar hækkaði ásett verð íbúða um 2,0% í janúar.

Að sama skapi kemur fram í skýrslunni að að íbúðaverð hefur aldrei mælst hærra í hlutfalli við vísitölu neysluverðs en í janúar síðastliðnum. Þá benda þinglýstir leigusamningar til þess að hlutfallslega flestar íbúðir séu í útleigu í Reykjanesbæ og Akureyri. Reykjavík er nálægt landsmeðaltali hvað varðar hlutfall þinglýstra samninga af heildaríbúðafjölda. Í Garðabæ, Hornafirði og Snæfellsbæ er leigumarkaðurinn óvirkastur á þennan mælikvarða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×