Innlent

Eigendur Nissan Pathfinder-jeppa hvattir til að láta skoða þá

Kjartan Kjartansson skrifar
Nissan hefur boðið eigendum eldri gerða Navara og Pathfinder að kaupa upp bílana. Aðeins Navara-bílarnir hafa þó verið innkallaðir.
Nissan hefur boðið eigendum eldri gerða Navara og Pathfinder að kaupa upp bílana. Aðeins Navara-bílarnir hafa þó verið innkallaðir. Vísir/AFP
Neytendastofa hvetur eigendur Nissan Pathfinder-bifreiða til þess að láta skoða bílana hjá BL ehf. til að fá úr því skorið hvort að grindin í þeim sé í lagi. Óeðlileg tæring í grindunum varð til þess að Nissan Navara-bílar voru innkallaðir í desember.

Í frétt á vef Neytendastofu kemur fram að Nissan hafi sent frá sér tilkynningu varðandi tæringuna í grind Pathfinder-bíla. Ekki hafi þó orðið vart við hana í eins miklum mæli og í Navara-bifreiðunum.

Eigendur bifreiða sem eru yngri en 12 ára eru hvattir til að koma með bifreiðarnar í skoðun til BL ehf. til að hægt sé að mæla styrkleika grindanna. Ef í ljós kemur að styrkleiki grinda sé ekki nægilegur miðað við staðla muni BL ehf. grípa til viðeigandi ráðstafana í samráði við Nissan.

Tilkynnt var um innköllun Navara-bifreiðana vegna tæringarinnar í desember. Á sama tíma sagði BL í skriflegu svari við fyrirspurn Vísis að fyrirtækið byðist til þess að kaupa upp Pathfinder-bíla sem væru yngri en tólf ára ef tæringin greindist í grind þeirra.

Nokkur fjöldi óánægðra eigenda Pathfinder og Navara hefur meðal annars stofnað Facebook-hóp þar sem þeir hafa deilt reynslusögum sínum. Margir þeirra eru óánægðir með að sitja uppi með verðlausa bíla og gagnrýna þeir BL meðal annars fyrir að láta sig ekki vita af tæringunni.

Eigandi Pathfinder-bíls sem keyptur var upp í fyrra lýsti sömu óánægju við Vísi í desember. Neytendastofa hefur haft málin til skoðunar frá því í fyrra.


Tengdar fréttir

BL innkallar Nissan Navara og kaupir upp Pathfinder

Nissan býðst til að kaupa upp Navara- og Pathfinder-bíla sem eru yngri en tólf ára vegna tæringar í grindum þeirra. Tilkynnt hefur verið um innköllun Navara-bílanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×