Körfubolti

Davis fór hamförum eftir röntgenmyndatöku í miðjum leik | Myndbönd

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Anthony Davis fór í myndatöku og fór svo á kostum.
Anthony Davis fór í myndatöku og fór svo á kostum. Vísir/Getty

Anthony Davis, leikmaður New Orleans Pelicans, fór hamförum fyrir sína menn í nótt þegar að þeir lögðu Los Angeles Clippers að velli, 121-116, í NBA-deildinni í körfubolta.

Davis skoraði tíu stig og tók fjögur fráköst í fyrri hálfleik en undir lok hans meiddist Davis á rifbeini og fór af velli um stund. Hann var settur í röntgenmyndatöku í miðjum leik en niðurstaðan var jákvæð.

Davis sneri því aftur inn á völlinn og skoraði 19 stig, tók sex fráköst, varði fjögur skot og stal einum bolta á tólf mínútum í þriðja leikhluta en í heildina skoraði hann 41 stig, tók þrettán fráköst og stal þremur boltum. Þá skoraði hann úr fjórum af sjö þriggja stiga skotum sínum.

Pelíkanarnir hafa verið á fínum skriði eftir að missa næstbesta leikmann liðsins, Boogie Cousins, í meiðsli, en liðið er búið að vinna níu leiki í röð og er í fjórða sæti vesturdeildarinnar.

Efsta liðið í vestrinu, Houston Rockets, virðist ósigrandi um þessar mundir en liðið vann 16. leikinn í röð í nótt þegar að það lagði OKC Thunder að velli, 122-112, á útivelli.

James Harden skoraði 23 stig og tók ellefu fráköst fyrir Houston en Chris Paul skoraði 25 stig. Russell Westbrook skoraði 32 stig fyrir Oklahoma City sem er í sjöunda sæti í vestrinu.

Þá er Golden State að finna taktinn eftir stjörnuleiksfríið en liðið er nú búið að vinna sex leiki í röð. Það vann 114-101 sigur á Brooklyn Nets á heimavelli í nótt þar sem Steph Curry skoraði 34 stig og hitti úr sex þriggja stiga skotum.

Úrslit næturinnar:
Charlotte Hornets - Philadelphia 76ers 114-128
Toronto Raptors - Atlanta Hawks 106-90
Washington Wizards - Miami Heat 117-113
OKC Thunder - Houston Rockets 112-122
Dallas Mavericks - Denver Nuggets 118-107
NY Knicks - Portland Trail Blazers 111-87
Golden State Warriors - Brooklyn Nets 114-101
LA Clippers - New Orleans Pelicans 116-121

NBA


Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.