Sport

Leikmaður Pittsburgh Steelers setti af stað herferð til að fá LeBron James í NFL

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Gæti þetta gerst?
Gæti þetta gerst?

JuJu Smith-Schuster, leikmaður Pittsburgh Steelers í NFL-deildinni í amerískum fótbolta, setti í gærkvöldi af stað herferð í þeim tilgangi að fá LeBron James til að hætta í körfubolta og ganga í raðir Steelers-manna í NFL.

Smith-Schuster tilkynnti um herferð sína á Twitter þar sem hann sagði að LeBron væri búinn að gera allt sem hægt er að gera og vinna allt sem hægt er að vinna í NBA og því væri um að gera að skipta um íþrótt.

Steelers-maðurinn sagði enn fremur að LeBron yrði talinn besti íþróttamaður allra tíma ef hann skiptir um íþrótt og vinnur NFL-deildina með Steelers-liðinu sem er eitt það besta í deildinni. Hann er að vinna með myllumerkið #LeBronToPittsburgh.LeBron James var ljómandi góður útherji í amerískum fótbolta þegar að hann spilaði íþróttina í menntaskóla áður en hann lagði körfuboltann fyrir sig sem var fínasta ákvörðun.

Smith-Schuster laug engu þegar að hann sagði LeBron búin að vinna allt sem í boði er, en þessi ótrúlegi körfuboltamaður hefur farið átta sinnum í lokaúrslit NBA, unnið þrjá titla, þrisvar sinnum verið kjörinn besti leikmaður lokaúrslitanna, fjórtán sinnum valinn í Stjörnuleikinn og fjórum sinnum kjörinn besti leikmaður deildarinnar.

Opni markaðurinn í NFL-deildinni fer brátt af stað sem er ein ástæða þess að Steelers-maðurinn er að setja þessa herferð af stað núna, en þó Cleveland sé ekki líklegasta liðið til að fara í lokaúrslitin núna er hætt við því að LeBron James verði upptekinn í NBA allavega fram í maí.

NFL


Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.