Fótbolti

Ronaldo jafnaði met og er að stinga Messi af í Meistaradeildinni

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Markahrókur mikill.
Markahrókur mikill. vísir/getty

Cristiano Ronaldo skoraði annað tveggja marka Real Madrid á Prinsavöllum í París í gærkvöldi þegar að liðið vann Paris Saint-Germain, 2-1, og komst tiltölulega þægilega áfram í átta liða úrslit Meistaradeildar Evrópu í fótbolta.

Evrópumeistarar síðustu tveggja ára unnu fyrri leikinn, 3-1, og einvígið samanlagt, 5-2, en með markinu sem Ronaldo skoraði jafnaði hann fimmtán ára gamalt met hollenska markahróksins Ruuds van Nistelrooy, fyrrverandi leikmanns Manchester United.

Ronaldo var nefnilega að skora í tólfta Meistaradeildarleiknum í röð, en hann er nú búinn að skora í hverjum einasta leik síðan að hann skoraði í undanúrslitunum gegn Juventus á síðasta ári.

Portúgalinn gerði meira að segja enn betur en Nistelrooy og er búinn að skora fjórtán mörk í þessum tólf leikjum en Hollendingurinn skoraði tólf mörk í jafnmörgum leikjum þegar að hann setti metið árið 2003.

Markaskor Cristiano Ronaldo í Meistaradeildinni er hreint með ólíkindum en hann hefur nú skorað 117 mörk í þessari sterkustu deild heims, þar af 102 í 96 leikjum fyrir Real Madrid.

Hann er búinn að skora 19 mörkum meira en Lionel Messi í Meistaradeildinni, en það eru mörkin í útsláttarkeppni Meistaradeildarinnar sem gera hann líklega að besta leikmanni hennar frá upphafi.

Ronaldo er nefnilega búinn að skora 57 mörk í útsláttarkeppninni en Lionel Messi aðeins 38. Næsti maður er svo Thomas Müller með 21 mark í útsláttarkeppninni.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.