Innlent

Skoða hvort málið tengist uppgjöri í undirheimum

Birgir Olgeirsson skrifar
Frá aðgerðum lögreglu á vettvangi.
Frá aðgerðum lögreglu á vettvangi.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu er með í skoðun hvort atburðarásin sem átti sér stað í vesturbæ Reykjavíkur í morgun tengist mögulega einhverskonar uppgjöri í undirheimunum. Grunur er um fíkniefnamisferli og hefur lögreglan lagt hald á fíkniefni í aðgerðum sínum og handtekið sjö.

Á ellefta tímanum í morgun var lögreglan með mikinn viðbúnað fyrir utan hús á Ægisíðu í Reykjavík. Sérsveitin var kölluð á vettvang og tók yfir húsnæði N1 á Ægisíðu undir aðgerðastöð. Var starfsfólki N1 beðið um að halda kyrru fyrir á meðan aðgerðum lögreglu stóð yfir.

Nokkru síðar var maður leiddur í járnum út úr húsi á Ægisíðu og barst í framhaldinu tilkynning frá lögreglunni um að fjórir væru í haldi vegna málsins.

Fyrr um morguninn, á níunda tímanum, hafði lögregla afskipti af leigubíl af stærri gerðinni við Hagamel, rétt ofan við Ísbúð Vesturbæjar. Í bílnum voru tveir farþegar og var að minnsta kosti annar þeirra illa farinn í andlitinu, eins og eftir líkamsárás. Þeir voru undir áhrifum og vildu lítið segja lögreglu. Voru þeir handteknir og færðir af vettvangi. Annar þeirra mótmælti því að vera handtekinn að sögn sjónarvotts sem Vísir ræddi við.

Blaðamaður Vísis varð vitni að því þegar hluti lögregluteymisins var í framhaldinu sendur niður á Ægissíðu. Þar var allt með kyrrum kjörum rétt fyrir klukkan níu en hálftíma síðar fjölgaði í liði lögreglu á vettvangi og var ákveðið að loka fyrir umferð um Ægissíðu.

Um hádegisbil í dag handtók lögreglan síðan þrjá í tengslum við lögregluaðgerðina á Ægisíðu. Jóhann Karl Þórisson, aðstoðaryfirlögregluþjónn á höfuðborgarsvæðinu, staðfesti það við Vísi og sagði að tekin yrði ákvörðun um framhaldið að yfirheyrslum loknum, það er hvort mönnunum yrði haldið lengur.

Guðmundur Páll Jónsson, lögreglufulltrúi á höfuðborgarsvæðinu, sagði í samtali við Vísi lögreglan væri að skoða hvort málið tengdist einhverskonar uppgjöri í undirheimunum. Leikur grunur á fíkniefnamisferli og sagði Guðmundur að lögreglan hefði lagt hald á fíkniefni í tengslum við rannsókn málsins. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira
×