Erlent

Dómi snúið við í máli manns sem var gefið raflost í dómsal

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Var það mat áfrýjunardómstóls að brotið hefði verið á stjórnarskrárvörðum rétti mannsins.
Var það mat áfrýjunardómstóls að brotið hefði verið á stjórnarskrárvörðum rétti mannsins. Vísir/Getty

Áfrýjunardómstóll í Texas hefur snúið við sakfellingu manns eftir að dómari gaf honum raflost í dómsal.

Terry Lee Morris var fundinn sekur um að hafa reynt að tæla barn til kynmaka árið 2014. Við réttarhöldin fyrirskipaði dómarinn réttarþjóni að virkja rafmagnsbelti sem sendi 50 þúsund volt í gegnum líkama Morris þegar hann neitaði að svara spurningum í dómsal.

Var það niðurstaða áfrýjunardómstólsins að ekki væri leyfilegt að notast við slík belti í dómsal. Beltin sem um ræðir eru til að mynda notuð í Tarrant sýslu í Texas og eru þau fest við fótleggi og kvið sakborninga og eru þau notuð ef þeir verða ofbeldisfullir.

Verjandinn mótmælti ekki
Morris áfrýjaði dómnum og fullyrti að brotið hefði verið gegn rétti hans með notkun beltisins. Þann 28. febrúar komst áfrýjunardómstóllinn að þeirri niðurstöðu að brotið hefði verið gegn stjórnarskrárvörðum rétti Morris og verður mál hans tekið fyrir að nýju.

Morris var ákærður fyrir að falast eftir kynmökum við fimmtán ára gamla stúlku. Þegar dómarinn spurði hvort Morris játaði sök svaraði hann á þá leið að hann væri í málaferlum gegn dómaranum og verjanda sínum. Fékk hann þá viðvörun um að hann fengi raflost ef hann fylgdi ekki reglum dómsins.

Þegar Morris bað dómarann að segja sig frá málinu fyrirskipaði dómarinn að hann fengi raflost. Aðspurður sagðist verjandi Morris ekki hafa mótmælt því að skjólstæðingi hans yrði gefið raflost vegna óviðeigandi hegðunar hans og vegna þess að hann trúði því ekki að raflostinu yrði framfylgt.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.