Erlent

Harðorður í garð Venesúela og Egyptalands

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Zeid Ra'ad al-Hussein, mannréttindastjóri SÞ.
Zeid Ra'ad al-Hussein, mannréttindastjóri SÞ. Nordicphotos/AFP
Grunnstoðir lýðræðisins rotna í Venesúela og yfirvöld í Egyptalandi grafa undan lýðræðinu. Þetta er á meðal þess sem kom fram í ræðu og skýrslu Zeid Ra’ad al-Hussein, mannréttindastjóra Sameinuðu þjóðanna, frá því í gær.

Forsetakosningar fara fram í Venesúela í maí en stjórnarandstaðan sniðgengur þær vegna óánægju með aðgerðir forsetans, Nicolas Maduro. „Umgjörð kosninganna uppfyllir á engan hátt lágmarksskilyrði um frjálsar og traustar kosningar,“ sagði Hussein í gær. Hvatti hann mannréttindaráð SÞ til að álykta um að rannsaka skuli mannréttindabrot í Venesúela.

Egyptar ganga til forsetakosninga síðar í þessum mánuði og þykir næsta víst að Abdel Fattah al-Sisi nái endurkjöri. Hussein sagði ríkisstjórn hans nú reyna að ala á ótta. Lögregla hafi handtekið og pyntað stjórnarandstæðinga og þaggað niður í óháðum fjölmiðlum.

„Þrýst hefur verið á frambjóðendur að draga framboð sín til baka. Sumir hafa verið handteknir. Lög hafa verið sett sem banna frambjóðendum að skipuleggja baráttufundi og rúmlega 400 vefsíðum fjölmiðla og félagasamtaka hefur verið lokað.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×