Erlent

Telur sig hafa borið kennsl á bein Ameliu Earhart

Kjartan Kjartansson skrifar
Earhart öðlaðist heimsfrægð fyrir afrek sín á fyrstu áratugum 20. aldarinnar. Flugvél hennar hvarf yfir Kyrrahafi árið 1937.
Earhart öðlaðist heimsfrægð fyrir afrek sín á fyrstu áratugum 20. aldarinnar. Flugvél hennar hvarf yfir Kyrrahafi árið 1937. Vísir/AFP

Bein sem fundust á eyju í Kyrrahafinu á 5. áratugnum voru úr Ameliu Earhart sem hvarf þegar hún reyndi að verða fyrsta konan til að fljúga í kringum jörðina. Þetta fullyrðir vísindamaður sem rannsakaði beinin þrátt fyrir að réttarlæknir hafi á sínum tíma komist að þeirri niðurstöðu að beinin væru úr karlmanni.

Breskir leiðangursmenn fundu beinin á eyjunni Nikumaroro árið 1940. Flugvél Earhart hvarf yfir Kyrrahafi þremur árum áður. Beinunum var hent eftir skoðun réttarmeinafræðings á sínum tíma.

Richard L. Jantz, prófessor við Tennessee-háskóla, færir hins vegar rök fyrir því að greiningar á beinum hafi verið skammt á veg komnar á 5. áratug síðustu aldar. Það telur Jantz að hafi haft áhrif á kyngreiningu þeirra.

Hann reyndi að bera saman upplýsingar um beinin sem fundust á eyjunni við hæð, þyngd, líkamsbyggingu, útlimalengd og hlutföll Earhart. Þróaði hann meðal annars tölvuforrit til að meta kyn og ætterni út frá mælingum á beinagrind, að sögn Washington Post.

Beinabyggingin passar betur við Earhart en nær alla aðra
Niðurstaða Jantz var að bein Earhart líktust þeim sem fundust á Nikumaroro meira en 99% einstaklinga í stóru úrtaki. Í tilfelli Nikumaroro-beinanna væri hún eina manneskjan sem vitað er um að hafa verið á ferð á þessum slóðum sem þau gætu hafa tilheyrt.

Kenningar hafa áður komið fram um að beinin gætu verið úr Earhart. Jantz birti niðurstöður sínar í vísindaritinu Forensic Anthropology.

Earhart var fyrsta konan sem flaug yfir Atlantshafið. Hvarf hennar hefur verið hulið leyndardómi í hátt í heila öld og hafa fjölmargar kenningar verið settar fram um örlög hennar í gegnum tíðina. Þar á meðal er kenning um að Earhart og Fred Noonan, siglingafræðingur hennar, hafi fallið í hendur Japana sem hafi talið þau bandaríska njósnara. Þau hafi verið pyntuð og myrt.


Tengdar fréttir

Myndin tekin tveimur árum áður en Earhart hvarf

Umdeild ljósmynd sem á að sýna flugkonuna Ameliu Earhart og Fred Noonan í haldi Japana á Jaluit-rifi í Marhsall eyjaklasanum árið 1937 birtist í ferðabók sem gefin var út í Japan árið 1936.

Lést Amelia Earhart í haldi Japana?

Gömul mynd sem fannst nýlega í Þjóðskjalasafni Bandaríkjanna er sögð gefa í skyn að frægasti kvenkyns flugmaður sögunnar, Amelia Earhart, hafi ekki dáið í flugslysi í Kyrrahafinu.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.