Innlent

„Hann hefur staðið í þessari baráttu við bankann núna árum saman“

Jóhann K. Jóhannsson skrifar

Öryrki lagði í dag Arion banka fyrir Hæstarétti í svokölluðu greiðsluskjólsmáli en bankanum var óheimilt að krefjast dráttarvaxta af lánum sem maðurinn var með í greiðsluskjóli í kjölfar bankahrunsins. Hæstaréttarlögmaður segir dóminn fordæmisgefandi og geta snert allt að tvö þúsund lántakendur.

Forsaga málsins er sú að maður sem lenti í vandræðum með tvö fasteignalán í kjölfar bankahrunsins árið 2008, stefni Arion Banka vegna þeirrar ákvörðunar bankans að innheimta dráttarvexti af lánunum tveimur en samþykkt var að maðurinn naut frestun greiðslna samkvæmt 1 mgr. 11. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga.

Dómur féll í héraðsdómi í lok október 2016 en í dómsorði var viðurkennt að Arion banka hafi verið óheimilt í tæp þrjú ár að krefja skuldara um dráttarvexti af lánum sínum. Hæstiréttur staðfesti í dag dóm héraðsdóms.

„Frá upphafi þótti mér með miklum ólíkindum að bankanum teldi sér stætt á því að krefja skuldara sem fór í þetta svokallaða greiðsluskjól um dráttarvexti á greiðsluskjólstíma.“ segir Einar Hugi Bjarnason, hæstaréttarlögmaður.

Einar Hugi segir dóm Hæstaréttar fordæmisgefandi og snerti á annað þúsund einstaklinga og hagsmunirnir séu á annan milljarð.

„Það sem ég vona auðvitað er að bankinn sjái að sér í kjölfar þessa dóms og hlutist til um það, að endurgreiða skuldurum þessa of teknu dráttarvexti og geri það fljótt og vel,“ segir Einar Hugi.

Einar hvetur fólk sem var í sömu stöðu og umbjóðandi hans í þessu máli, að hafa sótt um greiðsluskjól og ekki lokið því ferli með greiðsluaðlögunarsamningi að skoða réttarstöðu sína og kanna hvort bankinn hafi rukkað dráttarvexti á þeim tíma.

„Mér finnst með miklum ólíkindum, verð ég að leyfa mér að segja að bankinn hafi leyft sér að fara fram með þessum hætti. Þá vil ég vísa í þrennt; Í fyrsta lagi í markmið greiðsluaðlögunarlaganna, sem var það að koma skuldsettum einstaklingum í skjól í kjölfar efnahagshrunsins,“ segir Einar Hugi.

Í öðru lagi að samkvæmt greiðsluaðlögunarlögunum máttu skuldarar ekki greiða af skuldum sínum og kröfuhafar ekki krefja skuldara um greiðslu og undir þeim kringumstæðum segir Einar með ólíkindum að Arion banka hafi talið sér stætt að krefja skuldara um dráttarvexti sem í eðli sínu séu vanskilavextir.

Einar segir umbjóðanda sinn fenginn að málinu sé lokið.

„Hann hefur staðið í þessari baráttu við bankann núna árum saman og ég á von á því að hann verði mjög glaður,“ segir Einar.
 


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.