Enski boltinn

Man. Utd er eina toppliðið sem Salah á eftir að skora gegn

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Mohamed Salah er búinn að skora í sjö leikjum í röð.
Mohamed Salah er búinn að skora í sjö leikjum í röð. vísir/getty
Mohamed Salah verður í aðalhlutverki í hádeginu á morgun þegar að Liverpool mætir Manchester United á Old Trafford í stórleik helgarinnar í ensku úrvalsdeildinni.

Salah er markahæstur í deildinni ásamt Harry Kane en báðir eru búnir að skora 24 mörk. Það sem gerir árangur Egyptans svo magnaðan er, að hann er búinn að skora á móti öllum efstu sex liðunum nema einu.

Það er Manchester United og á morgun ætlar þessi magnaði framherji að breyta þeirri tölfræði og koma boltanum framhjá David De Gea sem var í miklu stuði þegar að liðin mættust á Anfield fyrr í vetur.

„Ég man enn þá eftir vörslunni hans frá Joel Matip. Ég klúðraði líka dauðafæri í þeim leik en De Gea er frábær,“ segir Salah í viðtali við Jamie Carragher á Sky Sports.

Salah er búinn að skora á móti Manchester City, Chelsea, Arsenal og Tottenham og getur sópað upp restinni af bestu liðunum með því að skora í stórleiknum á morgun sem er fyrsti leikur umferðarinnar.

„Maður undirbýr sig vel fyrir alla leiki og maður þekkir veikleika mótherjans og markvarðarins. Við erum samt að fara að spila á móti Manchester United og De Gea. Hann er stórkostlegur markvörður en ég mun reyna að skora,“ segir Mohamed Salah.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×