Enski boltinn

Stóri Sam getur varla unnið leik en vill stýra Gylfa í mörg ár til viðbótar

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Stóri Sam þungur á brún yfir leik sinna manna.
Stóri Sam þungur á brún yfir leik sinna manna. Vísir/Getty
Sam Allardyce, knattspyrnustjóri Everton, vill halda áfram í starfi eftir þessa leiktíð en orðrómur er í gangi á Englandi um að hann verði látinn fara í sumar.

Stóri Sam var ráðinn til Everton þegar að Ronald Koeman var látinn fara en það verður ekki beint sagt að fótboltinn sem Allardyce lætur Gylfa og félaga spila sé að heilla nokkurn mann.

Everton-liðið er vissulega í betri stöðu en það var undir stjórn Koemans en það er samt sem áður aðeins búið að vinna tvo leiki af síðustu tólf og hafa stuðningsmennirnir baulað á sína menn í undanförnum leikjum.

„Ég veit allt um Everton og hvað menn þurfa að gera hér. Ég vil stýra þessu félagi um langa hríð,“ sagði Allardyce á blaðamannafundi fyrir leik liðsins á móti Brighton á morgun.

Everton er í ellefta sæti eftir að tapa síðustu sex útileikjum liðsins, þar á meðal bikarleik á móti erkifjendunum í Liverpool.

„Við erum að ganga í gegnum erfiða tíma og þá þarf bara að loak hurðinni og reyna að einbeita sér að því sem maður er að reyna að afreka,“ sagði Allardyce.

„Ég hætti við að hætta í þjálfun því hér hjá Everton var langtímamarkmið í gangi sem mig langaði að vera hluti af. Ég er í viðræðum við eiganda félagsins en þær samræður eru auðvitað leynilegar,“ sagði Sam Allardyce.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×