Enski boltinn

Spyrnusérfræðingurinn Gylfi er maðurinn sem nýliðarnir óttast

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson og félagar í Everton vonast til að komast aftur á sigurbraut eftir tvö töp í röð í ensku úrvalsdeildinni á morgun þegar að liðið mætir nýliðum Brighton & Hove Albion á heimavelli.

Everton-liðið er aðeins búið að vinna tvo leiki af síðustu tólf en það tapaði Íslendingaslag fyrir Burnley um síðustu helgi og 1-0 fyrir Watford þar á undan.

Til allrar hamingju fyrir Everton er liðið á heimavelli á morgun, en það er búið að tapa í sex leikjum í röð á útivelli og er ekki að skapa sér mikið utan Guttagarðs.

Nýliðar Brighton eru á miklum skriði en liðið er taplaust í síðustu fimm leikjum í deildinni (3 sigrar, 2 jafntefli) og er komið áfram í bikarnum. Þeir mæta því kokhraustir á Goodison Park á morgun.

Maðurinn sem Brighton óttast á morgun er íslenski landsliðsmaðurinn Gylfi Þór Sigurðsson, en hann er leikmaðurinn sem á að fylgjast með í gestaliðinu, samkvæmt upphitunargrein fyrir leikinn á heimasíðu Brighton.

„Miðjumaðurinn er fastamaður í liði Everton og hefur verið það síðan að hann var keyptur fyrir metfé,“ segir í umsögn um Gylfa Þór. Sigurðsson stýrir spilinu inn á miðjunni fyrir Everton, en Íslendingurinn er búinn að skora fjögur mörk á leiktíðinni og gefa þrjár stoðsendingar.“

„Leikstjórnandinn hefur sannað sig sem einn besti spyrnumaður deildarinnar. Hann hefur skorað fjöldan allan af mörkum úr aukaspyrnum í gegnum árin með Reading, Tottenham, Swansea og Everton,“ er sagt um Gylfa Þór Sigurðsson.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×