Enski boltinn

Eiginkona og börn Liverpool-manns voru heima þegar innbrotsþjófarnir mættu: „Hræðilegt“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dejan Lovren.
Dejan Lovren. Vísir/Getty
Hann er ekki eini leikmaður Liverpool sem hefur fengið óboðna gesti heim til sín þegar hann er að keppa en Dejan Lovren kennir óhuggulegu innbroti um slaka frammistöðu sína í októbermánuði.

Dejan Lovren hefur mikla trú á því að hann og Virgil van Dijk geti orðið framtíðar miðherjapar Liverpool-liðsins en það hefur mikið gengið á innan og utan vallar hjá Króatanum á þessu tímabili.  

Lovren var harðlega gagnrýndur fyrir frammistöðu sína framan af tímabili og ekki batnaði lífið hjá honum þegar þjófar brutustu inn á heimili hans þegar hann var að keppa Meistaradeildarleik í Maribor í Slóveníu.

Lovren var meðal annars hótað lífláti á samfélagsmiðlum eftir slaka frammistöðu hans á móti Tottenham. Liverpool tapaði leiknum 4-1 en hann var tekinn af velli eftir rúman hálftíma. Innbrotið fór fram 17. október en Tottenham leikurinn aðeins fimm dögum síðar.





„Fólk horfir á fótboltann og skoðar ekki hvað sé í gangi í lífinu utan hans,“ sagði Dejan Lovren í viðali við BBC.

„Ég tel að ég hafi komið sterkur til baka,“ sagði Lovren. Innbrotsþjófarnir vissu af leik Lovren út í Slóveníu og nýttu tækifærið.

Eiginkona Lovren og tvö börn þeirra voru hinsvegar heima þegar hinir óprútnu aðilar mættu skyndilega inn á stofugólfið. Þetta var mikið áfall fyrir fjölskylduna og sjokkið sást á Lovren í næsta leik.

„Þetta var hræðilegt,“ sagði Lovren og telur að þetta atvik hafi haft mikil áhrif á frammistöðu hans í kjölfarið. „Það var ekki auðvelt að komast í gegnum þetta því við erum manneskjur og allir glíma við vandamál,“ sagði Lovren.

„Sumt fólk skilur þetta en annað ekki. Í þessari slæmu aðstöðu þá fékk ég stuðning frá virkilega góðu fólki,“ sagði Lovren.

Lovren hefur unnið sig til baka og byrjað í miðherjastöðunni með Virgil van Dijk í síðustu þremur leikjum. Liverpool hefur aðeins fengið á sig tvö mörk í þeim (á móti Tottenham) og haldið tvisvar hreinu.

„Mér fannst við standa okkur vel saman í síðustu leikjum sem við höfum spilað saman. Við skiljum hvorn annan vel og vonandi getum við haldið þessu áfram í framtíðinni,“ sagði Lovren.

Liverpool mætir Manchester United á Old Trafford í hádeginu á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×