Rashford tryggði United sigur í stórleiknum á Old Trafford

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Rashford skorar annað marka sinna á Old Trafford í dag
Rashford skorar annað marka sinna á Old Trafford í dag vísir/getty
Erkifjendurnir í Manchester United og Liverpool mættust á Old Trafford í dag í stórleik umferðarinnar og einum af stórleikjum tímabilsins.

Marcus Rashford var kominn aftur í byrjunarlið Manchester United og þakkaði traustið með frábæru marki á 14. mínútu. Romelu Lukaku fleytti markspyrnu David de Gea áfram upp völlinn þar sem Rashford var mættur. Hann hljóp framhjá Trent Alexander-Arnold og inn í teiginn þar sem hann skilaði boltanum vel í fjærhornið hægra megin með þrumuskoti alveg út við stöng.

Englendingurinn ungi var ekki lengi að tvöfalda markaskorun sína og United liðsins þegar hann skoraði mjög álíkt mark aðeins tíu mínútum seinna. Þá kom Lukaku boltanum inn á Juan Mata í vítateignum. Spánverjinn lagði boltann út á Rashford sem þrumaði svipuðu skoti í hægra markhornið, í þetta skipti hafði boltinn viðkomu í varnarmanni Liverpool en það skipti ekki máli, hann endaði framhjá Loris Karius og í marknetinu.

Liverpool var mun meira með boltann í fyrri hálfleik en United átti hættulegri færi. Virgil van Dijk átti þó dauðafæri áður en Rashford bætti við seinna markinu þegar hann fékk frían skalla af stuttu færi eftir hornspyrnu. Þá hefði Juan Mata átt að bæta við þriðja marki United þegar hann var einn í teignum og reyndi að koma boltanum í netið með bakfallsspyrnu sem fór framhjá markinu.

Áhorfendur á Old Trafford risu úr sætum sínum og klöppuðu fyrir United liðinu þegar það gekk til búningsherbergja í leikhléi. Jose Mourinho setti þennan leik vel upp og United stjórnaði spilinu á miðjunni og þrátt fyrir fimm hornspyrnur Liverpool reyndi ekki mikið á David de Gea í marki United.

Gestirnir mættu sterkari út úr búningsherbergjunum, eða réttara sagt þá voru heimamenn rólegri og vörðust mun neðar á vellinum svo leikmenn Liverpool áttu auðveldara með að stjórna spilinu. Þeir uppskáru svo fyrir erfiði sitt þegar Eric Bailly skoraði sjálfsmark á 66. mínútu.

Bailly reyndi þá stórfurðulega hreinsun á fyrirgjöf Sadio Maneog þrátt fyrir að David de Gea næði að koma hendinni í boltann þá gat hann ekki komið í veg fyrir að boltinn endaði í marknetinu enda algjörlega óviðbúinn þessum bolta.

Liverpool var mun sterkara liðið í seinni hálfleik og United fór lítið yfir miðju þar til á síðustu tíu mínútunum þegar liðið náði ágætri sókn. De Gea þurfti þó ekki að hafa of mikið fyrir hlutunum og United varðist áhlaupum Liverpool vel.

Sadio Mane var hársbreidd frá því að koma sér í frábært færi þegar hann spændi í gegnum alla vörn United í teignum í uppbótartíma en náði ekki að vinna sig framhjá síðasta varnarmanni. Hann vann hornspyrnu en United sótti hratt úr henni og voru komnir í vænlega stöðu en Loris Karius hljóp langt út úr marki sínu og bjargaði Liverpool frá blautri tusku í andlitið.

Rauðklæddir heimamenn náðu að sigla sigrinum heim, þeir fengu stigin þrjú, eru komnir með fimm stiga forskot á erkifjendurna í öðru sæti deildarinnar og stuðningsmennirnir eiga montréttinn, að minnsta kosti í dag.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira