Innlent

Til skoðunar að krefjast skaðabóta vegna vandræða við framkvæmd samræmdra prófa

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Forstjóri Menntamálstofnunar segir til skoðunar að rifta samningi við erlent fyrirtæki sem rekur kerfi sem notað er við framkvæmd samræmdra prófa og krefjast skaðabóta. Í dag þurfti að fresta samræmdu prófi í ensku en þetta er í annað sinn í þessari viku sem slíkt gerist vegna bilana í kerfinu.

Fresta þurfti samræmdu prófi í ensku hjá 9. bekkingum í dag, líkt og íslenskuprófinu sem lagt var fyrir á miðvikudaginn, vegna tæknilegra örðugleika. Tæpum helmingi nemenda tókst þó að ljúka prófinu í morgun en óljóst er ennþá hvenær og með hvaða hætti prófin verða lögð fyrir aftur. Samræmt próf í stærðfræði sem fram fór í gær, gekk þó vandræðalaust fyrir sig.

Arnór Guðmundsson, forstjóri Menntamálastofnunar, harmar uppákomuna. „Það er óviðunandi að nemendur þurfi að þreyta prófið við þessar kringumstæður og nú skiptir máli að huga að nemendum, upplýsa þá vel um þetta,“ segir Arnór, í samtali við Stöð 2. Bandaríska fyrirtækið Assessment Systems, sem hefur umsjón með vefþjóni við próftökuna, hefur beðist afsökunar vegna vandamálsins sem upp kom í kerfinu.

„Þeir sögðu hjá Assessment Systems, sem að reka prófakerfið, að þeir væru klárir með allt og stærðfræðin gekk vel á fimmtudaginn en síðan komu upp svipuð vandamál aftur,“ segir Arnór. Menntamálastofnun birti reglulega uppfærslur á Facebook um gang mála í morgun þar sem kennarar, skólastjórnendur og foreldrar lýstu yfir mikilli óánægju með framkvæmdina. Nemendur í Grenivíkurskóla brugðu á það ráð að grípa í spil meðan þeir biðu eftir að geta tekið prófið, en allt kom fyrir ekki. Stuttu síðar barst tilkynning um að prófinu yrði frestað.

Þetta er í fjórða sinn sem prófin eru keyrð með sama hætti en þó ekki í fyrsta sinn sem tæknilegir örðugleikar koma upp. Það kemur nú fyllilega til greina að rifta þjónustusamningi við fyrirtækið sem hljóðar upp á nokkrar milljónir á ári.

„Við munum íhuga okkar stöðu mjög vel hvaðþetta varðar,“ segir Arnór. Spurður hvort til greina komi að fara fram á skaðabætur frá fyrirtækinu segir hann það koma til greina.„Ég held aðþað sé eitt af því sem við munum íhuga.“

Arnór hefur verið boðaður á fund allsherjar og menntamálanefndar á mánudaginn ásamt starfsmönnum menntamálaráðuneytisins til að ræða framkvæmd prófanna. Þrátt fyrir vandræðaganginn segir Arnór rafræna framkvæmd prófanna hafa sína kosti og ólíklegt sé að horfið verði til hefðbundinna prófa á pappír.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×