Innlent

Fimmtíu prósent líkur á að umsækjendur fá hreindýr

Jakob Bjarnar skrifar
Misjafnt er hversu erfið svæðin eru yfirferðar og eins gott að menn séu í góðu formi þegar haldið er á hreindýraveiðar.
Misjafnt er hversu erfið svæðin eru yfirferðar og eins gott að menn séu í góðu formi þegar haldið er á hreindýraveiðar. visir/valli
Þá liggur það fyrir að þetta árið eru 3.180 veiðimenn sem hafa sótt um leyfi til að fara á hreindýraveiðar. Umsóknarfrestur er útrunninn. Leyfi sem til úthlutunar koma eru 1.450 þannig að skotveiðimenn geta gert sér góðar vonir um að fá leyfi.

„Mjög gróflega, já, þá eru þetta um fimmtíu prósent líkur,“ segir Bjarni Pálsson teymisstjóri veiði og verndar á umhverfisstofnun í samtali við Vísi.

Þeir hjá umhverfisstofnun eru nú að fara yfir umsóknirnar til að tryggja að þær séu í lagi. Að sögn Bjarna er þetta vikan sem er hvað helst taugastrekkjandi hjá þeim hjá umhverfisstofnun. Frá því að umsóknarfresti lýkur og þar til dregið hefur verið úr umsóknum, eftir þar til settum reglum. Dregið verður á Egilsstöðum, hjarta hreindýraslóða, og verður útdrátturinn klukkan tvö næstkomandi laugardag, í beinni útsendingu á vef umhverfisstofnunar, ust.is.

Af tilkomumikilli krúnunni má sjá að þarna hefur virðulegur tarfur og þungur verið felldur. Vert er að flytja bráðina hið fyrsta í verkun. Þá eru dýrin látin hanga og þau sett í frystiklefa.visir/stefán
Þó líkurnar á því að menn fái dýr séu um 50 prósent, í heildina tekið, er ekki þar öll sagan sögð.

„Þetta eru 389 tarfar og 1061 kýr sem eru til skiptanna. Þar af eru 40 kýr á svæði átta, sem miðar við nóvemberveiðar,“ segir Bjarni. Og misjafn er hversu eftirsótt svæðin eru og fleiri eru um tarfana. Þar með minnka líkurnar eða aukast í samræmi við það um hvað er sótt. Bjarni telur að svæði 1 og 2 séu eftirsóttust. Talið er að þau séu þægilegri en önnur svæði þar sem um er að ræða mikið fjalllendi. „Á svæði átta, til dæmis, þurfa menn að vera í ansi góðu líkamlegu formi,“ segir Bjarni. Reyndar á það við um öll svæðin.

Þá er jafnskiptaregla svokölluð er í gildi, hafi menn ekki fengið dýr lengi færast þeir upp lista og sitja fyrir á biðlista. Algengt er að menn vitji ekki leyfa sinna sem gerir skipulagningu erfiða.

Veiðitími tarfa er frá 1. ág­úst til og með 15. sept­em­ber, en þó get­ur Um­hverf­is­stofn­un heim­ilað veiðar á törf­um frá og með 15. júlí. Veiðitími kúa er frá 1. ág­úst til 20. septem­ber.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×