Handbolti

Seinni bylgjan veitti verðlaun: Þessi stóðu upp úr í síðustu umferðum

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
18. umferð karla og 17. umferð kvenna í Olís deildunum voru gerðar upp í Seinni bylgjunni á Stöð 2 Sport í gærkvöldi.

Í úrvalsliði 18. umferðar karla að þessu sinni voru tveir Selfyssingar eftir sigurinn gegn Haukum, þeir Richard Sæþór Sigurðsson í vinstra horninu og Haukur Þrastarsson í leikstjórnendastöðunni.

Björgvin Páll Gústavsson í markinu og Ágúst Birgisson eru fulltrúar Hafnarfjarðar í liðinu og taka með sér þjálfarann Halldór Jóhann Sigfússon.

Hinir bláleitu Bjarni Ófeigur Valdimarsson úr Gróttu, Framarinn Svanur Páll Vilhjálmsson og Ari Magnús Þorgeirsson, Stjörnunni, fullkomna sjö manna liðið.

Lið 17. umferðar kvenna er skipað Framstúlkunum Ragnheiði Júlíusdóttur í vinstri skyttu og Guðrúnu Ósk Maríasdóttur í markinu og þjálfari þeirra Stefán Arnarson stýrir liðinu.

Eyjakonan Ester Óskarsdóttir virðist eiga fast sæti í úrvalsliðinu og Sandra Erlingsdóttir er þar með henni í þetta skiptið í vinstra horninu.

Selfyssingurinn Perla Ruth Albertsdóttir er á línunni, Haukakonan Berta Rut Harðardóttir er í hægri skyttu og Valskonan Ólök Kristín Þorsteinsdóttir er í horninu hægra megin.

Nocco leikmenn umferðarinnar voru bláklædd í þetta skiptið. Ragnheiður Júlíusdóttir fékk heiðurstitilinn kvenna megin og Ari Magnús Þorgeirsson hirti nafnbótina karla megin.

Atli Ævar Ingólfsson, leikmaður Selfoss, er G-Form hörkutól umferðarinnar fyrir að snúa með mann í bakinu og skila boltanum í marknetið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×