Sport

Serena var hætt komin eftir fæðingu dóttur sinnar

Anton Ingi Leifsson skrifar
Serena er mætt aftur sem eru góðar fréttir fyrir íþróttaheiminn.
Serena er mætt aftur sem eru góðar fréttir fyrir íþróttaheiminn. vísir/afp
Serena Williams, tenniskonan frábæra, segir að hún hafi verið nær dauða en lífi þegar hún fæddi dóttur sína, Olympiu, fyrir tæplega ári síðan.

Fyrr í mánuðinum sneri Serena aftur á tennisvöllinn og segist hún heppin að hafa lifað eftir að hafa fengið lungnablóðtappa skömmu eftir fæðinguna.

„Meðgangan var nokkuð auðveld en þegar samdrættir hófust féll hjartsláttur hennar skyndilega niður. Hún fæddist eftir keisaraskurð og gekk aðgerðin vel. Áður en ég vissi af var ég komin með Olympia í fangið. Það er ótrúlegasta tilfinning sem ég hef kynnst. En svo tók við mikið óvissutímabil,” segir hún og lýsir því að næstu sex dagar hafi verið afar erfiðir.

„Þetta byrjaði með lungnablóðtappa og ég vissi vegna sögu minnar að það væri hætta á honum. Ég hikaði því ekki að kalla á hjúkrunarfræðingana þegar ég fann að ég var orðin andstutt,” segir hún en ekki mikið betra tók við.

Skurðurinn eftir aðgerðina opnaðist á ný vegna tíðra hóstakasta sem hún fékk. Síðar uppgötvaðist að hún var með blóðsöfnum í kviði sem hefðu getað leitt af sér fleiri blóðtappa. Williams þurfti því að fara aftur í aðgerð áður en hún gat loksins farið heim til sín, en þá tók við sex vikna rúmlega.

„Þegar ég loks kom heim til fjölskyldunnar þá þurfti ég að eyða sex vikum af tíma mínum sem móðir í rúminu. Ég er svo ánægð að hafa aðgengi að svona stórkostlegum læknum og hjúkrunarfræðingum.”

„Þau vissu nákvæmlega hvernig ætti að takast á við þessi vandamál og ef það væri ekki fyrir þeirra fagmennsku þá væri ég ekki hér í dag,” sagði þessi magnaða tenniskona að lokum.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×