Skoðun

Styttri vinnuvika

Rakel Heiðmarsdóttir skrifar
Ég hef fylgst af áhuga með nýlegum fréttum varðandi tilraunaverkefni um styttingu vinnuvikunnar án launaskerðingar. Reykjavíkurborg hóf sína tilraun 2015 á þremur starfsstöðvum og hefur smám saman bætt við fleiri vinnustöðum í verkefnið. Mælingar gefa almennt til kynna góðan árangur verkefnisins, svo sem aukna starfsánægju meðal starfsmanna og meiri framleiðni.

Hugsmiðjan kynnti einnig nýlega niðurstöður eigin tilraunverkefnis til tveggja ára þar sem vinnutími allra starfsmanna var styttur í sex klukkustundir á dag úr átta án launaskerðingar. Niðurstöður Hugsmiðjunnar eru sannarlega jákvæðar: 23% meiri framleiðni, 44% færri veikindadagar og starfsánægja mælist 100%. Og þrátt fyrir færri vinnustundir hafa tekjur Hugsmiðjunnar aukist að sögn talsmanna fyrirtækisins.

Ég rannsakaði sveigjanleika á vinnustöðum í doktorsrannsókn minni í sálfræði um aldamótin. Þátttakendur í rannsókninni voru starfsmenn hátæknifyrirtækis í Bandaríkjunum. Á heimasíðu fyrirtækisins kom fram að starfsmenn hefðu sveigjanleika í starfi og tækifæri til jafnvægis á milli vinnu og einkalífs. Í viðtölum mínum við starfsmenn (flestir sérfræðingar og stjórnendur) kom þó í ljós að vinnutími þeirra var almennt langur og tækifæri fyrir sveigjanleika lítill. Margir unnu 50-60 klukkustundir í viku hverri og nokkrir enn meira. Orlofsdagar töldu um tvær vikur á ári. Margir sögðust vera þreyttir, vinna undir miklu álagi og dreymdi um að komast snemma á eftirlaun (um 45-55 ára) til að sinna hugðarefnum sínum og ná meiri hvíld. Svo virtist sem eftirlaunadraumarnir væru haldreipi þeirra í miklu álags- og streituumhverfi. Á Íslandi þætti flestum skrýtið að ímynda sér eftirlaunaaldur um 45-55 ára eftir þrotlausa vinnu enda hlýtur að vera heilbrigðara að ná meira jafnvægi milli vinnu og einkalífs í gegnum allan starfsferilinn.

Vonandi þróast íslenski vinnumarkaðurinn ekki í þá átt sem hér var lýst á undan. Oft hefur þó komið fram að Íslendingar vinni að jafnaði lengri vinnudag en nágrannaþjóðir okkar og að framleiðni sé minni. Það er ánægjulegt að fylgjast með tilraunaverkefnum Reykjavíkurborgar og Hugsmiðjunnar um styttingu vinnutíma. Eðlilega eru áskoranir í slíku ferli og misflóknar eftir eðli starfsemi hvers vinnustaðar. En fyrstu niðurstöður hljóta að vera hvatning fyrir aðra vinnuveitendur. Aukin starfsánægja, betri nýting vinnutíma (meiri framleiðni) og fleiri tækifæri starfsmanna til að sinna fjölskyldu og áhugamálum er sannarlega eftirsóknarvert bæði fyrir vinnuveitendur og starfsmenn.



Höfundur er eigandi og ráðgjafi hjá Inventus og FKA-félagskona.


Tengdar fréttir

Rúmlega mánuður í frí vegna styttingar vinnuvikunnar

Ester Halldórsdóttir, teymisstjóri í félagslegri heimaþjónustu hjá þjónustumiðstöð Árbæjar og Grafarholts, hefur reiknað það út að hún fái 23 frídaga á ári vegna styttingu vinnuvikunnar.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×