Innlent

Einir og ófaglærðir í ferðamannavertíð

Sveinn Arnarsson skrifar
Vegfarendur á Vesturlandi munu búa við skerta þjónustu lögreglunnar frá og með vorinu.
Vegfarendur á Vesturlandi munu búa við skerta þjónustu lögreglunnar frá og með vorinu. VÍSIR/VILHELM

Ófaglærðir munu starfa einsamlir við lögreglustörf víða á landsbyggðinni í sumar sem eykur viðbragðstíma lögreglu til muna. Fjölgun ferðamanna er spáð áfram næsta sumar sem eykur umferð töluvert.

Þetta segir Sigurður Jónsson, lögreglumaður á Vesturlandi en hann hélt erindi í Háskólanum á Akureyri í gær undir yfirskriftinni „Einn á vakt“. Erindið var hluti ráðstefnu um löggæslu í landsbyggðum.

Sigurður segir þessa stöðu langt í frá ákjósanlega. „Frá áramótum hafa verið tveir á vakt í Borgarnesi en það breytist með vorinu og þá verður einn á vaktinni á virkum dögum á milli sjö á morgnana og tvö á daginn yfir árið,“ segir Sigurður. „Embættin þurfa að fá peninga til að geta greitt laun og ef þau fá ekki peninga þá geta þau ekki haldið úti starfsemi.“

Sigurður segir að auðvitað sé þetta ekki einvörðungu svona á Vesturlandi. Sama staðan sé á mörgum öðrum stöðum á landinu.

Sigurður Jónsson, lögreglumaður á Vesturlandi, í HA í gær. Vísir/SA

 „Það sem manni finnst súrast er að embættið sé að ráða ófaglært fólk gagngert til að starfa eitt úti á vegunum. Það eru dæmi um það. Borgarinn á rétt á faglegri og góðri þjónustu. Öryggi lögreglumanna, því er svolítið fórnað ef þeir eru einir, að ekki sé talað um að þú sért ófaglærður. Það á ekki að setja ófaglært fólk í þá stöðu að vera eitt, það er bara illa gert gagnvart því.“

Ófaglærðir lögreglumenn hafa ekki sömu réttindi og þeir lögreglumenn sem hafa menntað sig í greininni. Til að mynda má það fólk ekki aka forgangsakstur. Ef slys ber að höndum á landsbyggðinni þar sem aðeins einn ófaglærður einstaklingur er á vakt eykst viðbragðstíminn sem því nemur eða þá að kalla þarf út bakvakt. Þetta segir Sigurður ekki vera í lagi. „Það eru skýrar reglur sem gilda um akstur lögreglubifreiða. Þú þarft ákveðin réttindi til að aka þessum bílum í forgangsakstri.“

Lögreglumenn á vakt úti á landi sinna oft ótrúlegustu aukaverkum. Í erindi sínu við Háskólann á Akureyri í gær nefndi hann að í fyrradag hafi hann farið í útkall ásamt sálfræðingi á sveitabæ nokkurn í umdæminu. Það hafi endað á því að annar þeirra þurfti að fara í fjós að mjólka og sinna bústörfum. „Þetta gerist iðulega, að við þurfum að setja okkur í hlutverk hinna ýmsu aðila. Við lögreglumenn þurfum að geta verið sálfræðingar, sálusorgarar, prestar, bifvélavirkjar eða bændur ef svo ber undir. Þegar við erum einir á vakt geta alls konar hlutir orðið á vegi manns.“

Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra. Vísir/Eyþór

Hagrætt þrátt fyrir aukið fjármagn

Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra kynnti á dögunum aðgerðaáætlun um meðferð kynferðisbrota innan lögreglunnar. Alls verður bætt við 15 stöðugildum hjá lögregluembættunum og skiptast þau þannig að lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fær sex stöðugildi, tvö lögregluembætti fá tvö stöðugildi og önnur lögregluembætti sem fara með rannsóknir kynferðisbrota fá eitt stöðugildi hvert.

Sigurður Jónsson bendir á að það sé auðvitað mjög gott að efla rannsóknir og löggæslustörf þegar kemur að kynferðisbrotum. „Hins vegar er það svo að það er áfram hagræðingarkrafa á embættunum. Það er ástæðan fyrir því að lögreglumenn verða einir á vakt frá og með vorinu þar til fjárframlög til embættanna breytist,“ segir Sigurður.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.