Skoðun

Óhæf aðferð við hæfismat

Eggert Briem skrifar
Mikið hefur verið fjallað um skipan dómara í Landsrétt, en lítið um aðferð hæfisnefndar við mat á þeim 15 sem sem hæfastir þóttu, 10 körlum og 5 konum. Á þessum tölum sést strax að hæfismatið á hópnum sem heild er óhæft. Mikilsvægast er að Landsréttur njóti trausts þjóðarinnar. Að velja tíu karla og fimm konur í réttinn á okkar tímum er örugg leið til að útiloka að rétturinn njóti mikils trausts.

En skoðum aðra þætti en kyn. Setjum sem svo að velja eigi 15 manna fótboltalið úr 30 manna hópi (11 og 4 varamenn). Ef hæfisnefnd mæti einungis hvern einstakan og alla á sama mælikvarða, gæti farið svo að liðið samanstæði af eintómum frábærum miðframherjum. Engir varnarmenn kæmust í liðið og sá sem eingöngu hefði staðið í marki fengi lægst mat sökum einhæfni.

Hvernig getur hæfisnefndin hafa staðið svona illa að málum? Í bestunarfræðum þar sem velja á hóp, hvort sem um er að ræða dómara í Landsrétt eða fótboltamenn í lið, er sú leið að meta einungis hvern einstakan og alla á sama mælikvarða talin ein sú versta. Er t.d. ekki skrítið að sá umsækjandi sem eingöngu hefur helgað sig dómarastörfum var ekki valinn í liðið?

Erfitt hlýtur að vera, jafnt fyrir ráðherra sem Alþingi, að vinna úr slíku mati. Réttast væri að byrja upp á nýtt og benda nýrri hæfisnefnd á að traust á réttinum skiptir öllu máli og að þjóðin mun líta á réttinn sem heild.

Höfundur er prófessor emeritus




Skoðun

Sjá meira


×