Innlent

Vegir víða í slæmu ástandi eftir veðurofsann

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Nú er rétt að vera vakandi við aksturinn.
Nú er rétt að vera vakandi við aksturinn. VÍSIR/GVA
Vegagerðin varar við margvíslegum hættum sem ökumenn gætu rekið sig á við akstur í dag. Slitlag vega sé til að mynda víða illa farið eftir veðurfarið sem gengið hefur yfir að undanförnu. Vegagerðin biður vegfarendur því að sýna sérstaka aðgát og haga akstri með tilliti til ástands vega.

Þá flæðir vatn yfir veg á þremur stöðum í sunnanverðum Fáskrúðsfirði og eru vegfarendur beðnir að sýna aðgát og fara varlega. Ófært er að sama skapi innst á Hvítársíðuvegi, við brúna yfir Norðlingafljót, þar sem vatn flæðir yfir veg.

Vegurinn í Álftafirði, milli Djúpavogs og Hafnar, er í sundur en þar er unnið að viðgerð og Þingskálavegur er ófær vegna vatnaskemmda ofan við bæinn Hóla.

Ökumenn sem eiga leið um Hvalnesskriður ættu einnig að fara varlega. Vegna mikillar úrkomu hefur verið töluvert grjóthrun á þeim slóðum og því rétt að fara að öllu með gát.

Um færð og aðstæður á vegum segir á vef Vegagerðarinnar:

 

  • Hálkublettir eru á Reykjanesbraut og Höfuðborgarsvæðinu en á Suðurlandi er víða snjóþekja.
  • Á Vesturlandi er snjóþekja á flestum leiðum en þæfingur á Holtavörðuheiði og Fróðárheiði.
  • Snjóþekja, hálka eða hálkublettir eru á Vestfjörðum.
  • Á Norðurlandi vestra er hálka eða snjóþekja á vegum en á Norðausturlandi og Austurlandi er víðast greiðfært en einhverjir hálkublettir á fjallvegum. 
  • Það er einnig að mestu greiðfært með suðausturströndinni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×