Liverpool í annað sætið

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Leikmenn Liverpool fagna.
Leikmenn Liverpool fagna. vísir/getty
Liverpool er enn ósigrað á heimavelli í ensku úrvalsdeildinni í vetur eftir að liðið vann West Ham nokkuð örugglega á Anfield í dag.

Leikurinn byrjaði af krafti þegar Mohamed Salah skaut í stöngina strax á þriðju mínútu. Stuttu síðar skaut Marko Arnautovic í slánna hinu megin áður en Emre Can náði að brjóta ísinn eftir hálftíma leik.

Hann skallaði þá hornspyrnu Salah framhjá Adrian í markinu. Frakkinn Patrice Evra mætti aftur í úrvalsdeildina í dag og virtist aðeins ryðgaður þegar hann náði ekki að passa nógu vel upp á Can sem fékk nokkuð frían skalla.

Staðan í hálfleik var 1-0 en Egyptinn Salah var ekki lengi að breyta því, hann skoraði strax á 51. mínútu og tvöfaldaði forystu heimamanna.

Eftir að Roberto Firmino bætti þriðja markinu við virtist Liverpool vera að ganga frá leiknum þar til Michail Antonio var búinn að leggja boltann fram hjá Loris Karius í marki Liverpool aðeins tveimur mínútum seinna. Enn var von fyrir West Ham.

Vonin skilaði sér þó ekki í frammistöðu leikmannanna og Sadio Mané gekk endanlega frá leiknum þegar skot hans fór í stöngina og inn, 4-1 þegar rúmar tíu mínútur voru eftir af leiknum.

Áfram héldu heimamenn að sækja en mörkin urðu ekki fleiri. Með sigrinum tekur Liverpool annað sæti deildarinnar af Manchester United. United á þó eftir að spila sinn leik í þessari umferð, liðið spilar gegn Chelsea á morgun.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira