Innlent

Skilti við Hlemm sveiflast „eins og lauf í vindi“

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Viðbragðsaðilar við störf á Hlemmi í kvöld.
Viðbragðsaðilar við störf á Hlemmi í kvöld. Vísir/Egill

Skilti utan á hótelinu Hlemmur Square við Hlemm í miðborg Reykjavíkur hefur losnað frá byggingunni og sveiflast til og frá í hvössum vindi sem nú er á höfuðborgarsvæðinu. Viðbragðsaðilar vinna nú að því að ná skiltinu niður.

Lögregluþjónn á vettvangi segir í samtali við Vísi á áttunda tímanum í kvöld að verulega hætta sé á að skiltið detti niður.

„Það hefur slitnað út frá þremur festingum og svo sveiflast þetta eins og lauf í vindi.“

Búið er að girða af svæðið undir skiltinu til að koma í veg fyrir að það falli á vegfarendur. Þá eru björgunarsveitir mættar á staðinn til aðstoðar auk kranabíls.

Aftakaveður er á höfuðborgarsvæðinu en skiltið laflausa er þó fyrsta veðurtengda verkefnið sem lögregla sinnir í kvöld.

Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, segir í samtali við Vísi á áttunda tímanum að skiltið umrædda sé einnig fyrsta verkefni kvöldsins hjá björgunarsveitum á höfuðborgarsvæðinu. Verkefnin séu nú alls þrjú, fyrr í dag sinntu björgunarsveitir tveimur fokútköllum á Hvolsvelli annars vegar og Blönduósi hins vegar.

Veður er afar slæmt um allt land og er gul viðvörun Veðurstofu  í gildi á höfuðborgarsvæðinu, Suðurlandi, Faxaflóa, Breiðafirði, Vestirði, Norðurlandi eystra, Austurlandi að glettingi, Austfjörðum, Suðausturlandi og Miðhálendi. Þá er appelsínugul viðvörun í gildi á Ströndum og Norðurlandi vestra.

Kranabíll er kominn á vettvang. Vísir/Egill

 

Lögregla vaktar skiltið við Hlemm Square. Vísir/Egill

 

Skiltið sveiflaðist til eins og sjá má á myndinni. Vísir/Egill

Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.