Innlent

Telur skólakerfið ekki hafa breyst frá 19. öld

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar
Forseti sænskrar nýsköpunarmiðstöðvar fyrir ungt fólk sem hefur horfið frá námi eða er án atvinnu telur að skólakerfið hafi ekki breyst frá 19. öldinni. Ungt fólk fái nú upplýsingar úr öðrum áttum og skilgreina þurfi hvað skólarnir eigi að gera í þessu nýja umhverfi.

Siduri Poli er einn stofnenda Changers Hub, nýsköpunarmiðstöðvar í Stokkhólmi, fyrir fólk á aldrinum 16-25 ára sem hefur flosnað upp úr námi eða er atvinnulaust. Hún vinnur líka að því að hjálpa ungmennunum að koma hugmyndum sínum í framkvæmd.

„Skólakerfið hefur ekki breyst síðan á 19. öld þótt allur heimurinn sé að breytast. Upplýsingarnar sem við fengum í skóla fáum við annars staðar núna, úr símanum, úr tölvum. Þegar upplýsingarnar og þekkingin koma ekki úr skólanum hver er þá tilgangur skólans núna? Það er eitthvað sem við þurfum að skilgreina og vinna með. Ég held að margir hætti í skóla af því að þeir fá ekki örvun í skólakerfinu,“ segir Poli.

Fá tólin til að verða frumkvöðlar

Hún telur mikilvægt að ungt fólk sem finnur sig ekki innan skólakerfisins fái önnur tækifæri. Bæði þurfi að breyta kerfinu og kanna hvað ungmennin sem hætta í skóla vilji gera.

Samtök hennar hafa hjálpað fleiri en þúsund ungmennum að koma hugmyndum sínum í framkvæmd og hafa mörg verkefnin notið velgengni, að hennar sögn.

„Þetta snýst um að útvega fólki tækin til að verða frumkvöðlar en einnig er þetta eldsneyti fyrir sænska hagkerfið því þetta eru líka viðskipti,“ segir Poli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×