Erlent

Lögregluhundurinn Puskas bjargaði deginum

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Hinn átta ára gamli Puskas fékk blíðar móttökur þegar hann kom aftur á lögreglustöðina eftir vel heppnað verkefni.
Hinn átta ára gamli Puskas fékk blíðar móttökur þegar hann kom aftur á lögreglustöðina eftir vel heppnað verkefni. Skjáskot
Lögregluhundur í Santa Ana, borg nærri Los Angeles, hefur verið ausinn lofi síðastliðinn sólarhring eftir að hann yfirbugaði mann sem var á flótta undan laganna vörðum.

Hinn átta ára gamali Schäfer-hundur Puskas hljóp uppi Antonio Padilla en hann er grunaður um að hafa reynt að aka á lögregluþjón þann 18. febrúar síðastliðinn. Myndband af eltingaleiknum hefur farið víða eftir að það birtist á vef NBC í gær. Það má sjá hér að neðan.

Lögreglumenn ráku augun í Padilla er hann ók svörtum pallbíl og gáfu honum merki um að stöðva bifreiðina. Þess í stað reyndi ökumaðurinn að stinga lögregluna af og upphófst þá heljarinnar eftirför.

Í myndbandinu má sjá hvernig Padilla stelur bifreið í miðri eftirförinni og ekur á og í veg fyrir fjölda bíla sem á vegi hans urðu. Þegar hann yfirgaf svo stolnu bifreiðina stökk Puskas, sem nefndur er eftir ungversku fótboltagoðsögninni Ferenc Puskás, á Padilla og náði að draga hann til jarðar.

Lögreglumenn mættu svo á vettvang og handtóku manninn sem má búast við langri fangelsisvist.

Í öllum átökunum brotnuðu nokkrar tennur í Puskas og mun hann þurfa að fara í aðgerð vegna þessa. Ekki er þó gert ráð fyrir öðru en að hann verði orðinn fullfrískur innan nokkurra vikna og tilbúinn að glefsa í fleiri glæpamenn.

Frétt NBC má sjá með því að smella hér sem og í spilaranum hér að neðan.



Ef myndbandið birtist í litlum glugga mælum við með því að smella á takkann í hægra horni spilarans. Það stækkar myndbandið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×