Innlent

Hallgrímur biðst afsökunar eftir að hafa móðgað landsbyggðina með ruddalegri athugasemd

Birgir Olgeirsson skrifar
Ég vildi að ég gæti tekið þetta komment til baka en það er víst ekki hægt, segir skáldið.
Ég vildi að ég gæti tekið þetta komment til baka en það er víst ekki hægt, segir skáldið. visir/valli
Hallgrímur Helgason rithöfundur hefur beðist afsökunar á því að hafa líkt landsbyggðinni við hamfarasvæði í stríðshrjáðu landi.

Hallgrímur lét þau orð falla í gær í tilefni frétta af komu flóttamanna til landsins. Ríkisútvarpið hafði sagt frá því 21 íraskur flóttamaður hefði komið til landsins í gær. Um er að ræða fimm fjölskyldur, tvær þeirra setjast að í Súðavík og á Ísafirði á Vestfjörðum og tvær setjast að í Neskaupstað og ein á Reyðarfirði fyrir austan.

Sjónvarpsmaðurinn Gísli Marteinn Baldursson spurði í kjölfarið á Twitter hvers vegna þetta flóttafólk væri sent út á land. Spurði hann hvort það væri að þeirra ósk eða hvort það væri mat fagfólks að það væri best fyrir þau eða pólitísk ákvörðun á Íslandi?

Gísli Marteinn tók fram að honum finnist frábært ef ósk flóttafólksins er að setjast að í friðsælum bæjum víðsvegar að um landið, eða ef fagfólk telur af einhverri ástæðu að það sé best.

Hallgrímur sagði í svari við innleggi Gísla Marteins að þessi ákvörðun væri hálf galið. Íslendingar fái fólk frá hamfarasvæði og það sé síðan sent út á landsbyggðina sem Hallgrímur líkti við hamfarasvæði því þar vill enginn búa.

„Þetta er brútalt,“ sagði Hallgrímur.

Var þetta gagnrýnt harðlega og benti Þórunn Ólafsdóttir, sem hefur fengist við móttöku flóttamanna bæði hér á landi og erlendis, að bæði höfuðborg og landsbyggð hafi sína kosti og galla í þessum málum eins og öðrum. 

 

Þóroddur Bjarnason, prófessor við Háskólann á Akureyri og fyrrverandi stjórnarformaður Byggðastofnunar, vakti athygli á skrifum Hallgríms í Facebook-hópnum Umræður um byggðaþróun, þar sem hann sagðist hreinlega vera kjaftstopp.

Þar er Hallgrímur meðal annars gagnrýndur af Ólínu Kjerúlf Þorvarðardóttur, fyrrverandi þingmanni Samfylkingarinnar, sem sagði þetta var frámunalega fordóma hjá Hallgrími og bera vott um mikið þekkingarleysi

Hallgrímur segir á Facebook í dag að honum hafi orðið á mistök á Twitter í gær með þessari ruddalegu athugasemd, eins og hann kallar hana sjálfur.

„Ég þykist líka vita að góður og opinn hugur tekur á móti komufólkinu um allt land. Og bið ég svo vini mína á landsbyggðinni að fyrirgefa mér þetta rugl, en einkum þó flóttamennina sjálfa, en þeir eru jú mikilvægastir í þessu öllu. Orðið “hamfarasvæði” var mjög taktlaust í þessu sambandi. Ég vildi að ég gæti tekið þetta komment til baka en það er víst ekki hægt. Því bið ég, kæru vinir, að þið vegið þessi orð hér gegn hinum,“ segir Hallgrímur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×