Enski boltinn

Pirraður Wenger: Enginn að spyrja hvort þín staða verði endurskoðuð í lok tímabilsins

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Wenger er ekkert sérstaklega hress.
Wenger er ekkert sérstaklega hress. vísir/getty
Það er farið að síga á seinni hluta tímabilsins og venju samkvæmt er mikið rætt um framtíð Arsene Wenger hjá Arsenal. Stjóranum til lítillar gleði.

Enn eitt árið vill stór hluti stuðningsmanna Arsenal losna við Wenger og tapið gegn Man. City í úrslitum deildabikarsins setti þá umræðu á fullt á ný enda gat Arsenal ekkert í leiknum.

Wenger hefur stýrt Arsenal frá árinu 1996 og skrifaði undir nýjan tveggja ára samning í lok síðasta tímabils. Hann segist ekki vita af því að til standi að endurskoða þann samning.

„Staðan hjá okkur er þannig að við erum bara að hugsa um næsta leik. Ég er ekki að spyrja þig hvort þinn miðill ætli að endurskoða þína stöðu undir lok tímabilsins,“ sagði pirraður Wenger við blaðamann sem hafði gerst svo djarfur að spyrja Wenger út í framtíðina.

„Mitt hlutverk er að gera mitt besta í starfi og svo er það starf annarra hvort ég sé að standa mig nógu vel.“

Wenger var svo spurður hvort hann gæti staðfest að hann yrði í brúnni næsta vetur? Það var ekki til að hressa Frakkann.

„Myndirðu hætta að sofa ef þú færð ekki að vita það? Nei. Það sem er áhugavert í fótbolta er frammistaða liðanna og það munt þú sjá á fimmtudag. Ég trúi því varla að ég sé alltaf að svara sömu spurningunum. Ég hef verið hérna í 21 ár og hafnað öllu öðru til þess að standa við skuldbindingar mínar hérna.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×