Þrenna Llorente kláraði Rochdale eftir myndbandssirkus í snjónum á Wembley

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Svo mikið snjóaði á völlinn í kvöld að stöðva þurfti leikinn í seinni hálfleik svo hægt væri að moka af línum vallarins.
Svo mikið snjóaði á völlinn í kvöld að stöðva þurfti leikinn í seinni hálfleik svo hægt væri að moka af línum vallarins. vísir/getty
Þrenna Fernando Llorente snemma í seinni hálfleik gerði út um leik Tottenham og Rochdale í endurteknum leik úr 5. umferð ensku bikarkeppninnar eftir að myndbandsdómgæslukerfið hafði einkennt fyrri hálfleikinn.

Erik Lamela skoraði mark fyrir Tottenham eftir aðeins 6. mínútna leik en það var dæmt af eftir að myndbandsdómarinn ákvað að Llorente hefði brotið af sér í aðdraganda marksins.

Son Heung-min kom Tottenham hins vegar yfir stuttu seinna. Hann fékk svo tækifæri til þess að tvöfalda markatöluna þegar vítaspyrna var dæmd með aðstoð myndbandsdómaran. Brotið var ekki mikið, en þó var hægt að réttlæta vítaspyrnu. Son skoraði úr spyrnunni. Það mark var hins vegar dæmt af og Son fékk gult spjald fyrir að hafa stoppað í aðhlaupinu fyrir spyrnuna.

Paul Tierney, dómari leiksins, fékk myndbandsdómaran til að yfirfara hlaup Son og ganga úr skugga um að dómur hans hefði verið réttur, hann stóð og staðan því enn 1-0 fyrir Tottenham. Allt umstangið í kringum dóminn á spyrnunni og yfirferðina á henni tók hátt í tíu mínútur.

Stephen Humphrys jafnaði metin fyrir Tottenham aðeins örfáum mínútum síðar, markið fékk þó ekki að standa fyrr en það hafði verið skoðað nokkrum sinnum af myndbandsdómaranum. Staðan í leikhléi var jöfn 1-1.

Spánverjinn Llorente ákvað hins vegar í hálfleik að hann hefði fengið nóg. Hann kom út úr leikhléinu fullur af eldmóði og skoraði þrjú mörk á 12 mínútna kafla strax í upphafi seinni hálfleiks.*

Son og Kyle Walker-Peters gengu svo frá leiknum, lokatölur 6-1 og Tottenham komið örugglega áfram í 8-liða úrslitin. Þar mætir liðið Swansea sem hafði betur gegn Sheffield Wednesday í endurteknum leik í gær.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira