Menning

Ég þarf alltaf að vera að ögra sjálfri mér

Magnús Guðmundsson skrifar
Peter Máté og Þóra Einarsdóttir verða í Salnum á sunnudagskvöldið.
Peter Máté og Þóra Einarsdóttir verða í Salnum á sunnudagskvöldið. Fréttablaðið/Anton Brink
Þóra Einarsdóttir sópransöngkona og Peter Máté píanóleikari halda tónleika í Salnum á sunnudaginn þar sem dagskráin er sérdeilis fjölbreytt og Þóra ætlar að gera sér lítið fyrir og syngja á fimm tungumálum.

Við vorum með tónleika saman síðastliðið vor á Ítalíu og það svona markar upphafið að okkar samstarfi,“ segir Þóra Einarsdóttir sópransöngkona um tónleika hennar og hins snjalla píanóleikara Peters Máté í Salnum annað kvöld, sunnudag, klukkan átta. Þóra bætir því við að hún hafi reyndar þurft að hafa talsvert fyrir því að fá Peter til liðs við sig. „Ég var lengi búin að vera að ýta við honum með að taka það að sér að spila meira og spila með söng og er afskaplega stolt af því að hafa fengið hann til þess,“ segir Þóra og hlær við tilhugsunina.

Peter Máté er fæddur í Ungverjalandi en hefur verið búsettur á Íslandi í ein 28 ár. Þóra segir að ungverskur bakgrunnur Peters nýtist óneitanlega vel að þessu sinni þar sem á efnisskránni eru m.a. ungversk þjóðlög í útsetningum Béla Bartók. „Peter gat leiðbeint mér með framburðinn og stílinn og svona ýtti mér út í að syngja þessi dásamlegu lög. En svo erum við líka með Britten við ljóð eftir Auden en sá síðarnefndi var einmitt heilmikið á Íslandi og ljóðaflokkurinn kallast On This Is­land. Og ég er nú ekki frá því að það sé smá Ísland þarna einhvers staðar.“

Þóra segir að svo ætli þau líka að flytja Brettl-Lieder eftir Schönberg. „Sumir halda að þetta sé eitthvað óskaplega þungt en þetta er frá þeim tíma þegar Schönberg var með kabaretthljómsveit í Berlín og skrifaði kabarettsöngva. Þeir eru mjög skakkir en skemmtilegir en maður heyrir alveg að þetta er Schönberg. Þetta er allt önnur hlið á honum en fólk er vant að heyra og hún er ákaflega skemmtileg.

Eftir hlé erum við svo með Claude Debussy, Ariettes Oubliées, eða litlar gleymdar aríur, og það er samið við afskaplega falleg ljóð eftir Paul Verlaine og þetta er alveg uppfullt af innblæstri og fegurð. En svo endum við tónleikana á rómantískum Rakh­manínov, þannig að þetta er alveg dúndur dagskrá hjá okkur,“ segir Þóra létt í bragði.

Þóra bendir á að öll þessi tónskáld eigi það sameiginlegt að skrifa mjög ríkulega og vel fyrir píanóið. „Allir skrifuðu þeir flotta píanótónlist sem Peter hefur spilað mikið af og hann kemur því öðruvísi að sönglögunum. Kemur að þeim með gríðarlega mikla tækni og þekkingu sem bætir miklu við enda er píanóið í stóru hlutverki á þessum tónleikum. Það er alver ótrúlega gaman að vinna með honum.“

Á tónleikunum kemur Þóra til með að syngja á einum fimm tungumálum, ensku, ungversku, þýsku, frönsku og rússnesku, og aðspurð hvort hún sé ekkert bangin við slíkt þá tekur hún ekki alveg fyrir það. „Þetta eru alveg ríflega 30 textar og af því að maður er að rembast við að leggja þetta allt á minnið þá er þetta ekkert þrautalaust en samt alveg rosalega skemmtilegt. En ég þarf alltaf að vera að ögra sjálfri mér og það er það sem heldur mér á tánum. Mér finnst þetta æðislegt. Ég hef til að mynda aldrei sungið á ungversku áður en Peter segist skilja þetta þannig að ég er bara kát,“ segir Þóra að lokum skellihlæjandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×