Enski boltinn

Messan: Charlie Adam of hægur til að fá víti

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar

Það var mikið um læti á bet365 vellinum í Stoke um helgina þegar heimamenn fengu nokkuð umdeilda vítaspyrnu og rifust um hver ætti að fá að taka spyrnuna.

Ríkharð Óskar Guðnason tók atvikið fyrir í Messunni í gær með sérfræðingum sínum Bjarna Guðjónssyni og Ríkharði Daðasyni.

„Við skulum vona að þeir fari að dæma á þetta víti, þá fáum við fullt fullt af vítum,“ sagði Bjarni þegar Rikki spurði hvort þetta ætti yfir höfuð að vera vítaspyrna.

Pele krækti í vítaspyrnuna og vildi fá að taka hana sjálfur. Hann er hins vegar ekki vítaskytta liðsins heldur er það Charlie Adam og hann fór á punktinn.

Adam tók spyrnuna, lét verja frá sér og var svo ekki nógu snöggur í frákastið og var boltinn tæklaður í burtu frá honum.

„Afhverju er hann svona lengi í frákastið,“ kallar Rikki, stórhneykslaður á Adam þarna.

Bjarni greip þá fram í og sagði að það væri klárt víti og rautt spjald á tæklinguna á Adam í frákastinu.

„Já ég veit það, en mér finnst bara að hann eigi ekki að fá það því hann er svo lengi. Hann á að vera löngu búinn að henda sér á boltann,“ sagði Rikki og var honum greinilega heitt í hamsi.

Þeir gátu þó sammælst á það að líklegast hefði dómarinn einfaldlega ekki þorað að dæma víti í seinna skiptið, nýbúinn að dæma frekar „soft“ vítaspyrnu.

Þessa stórskemmtilegu umræðu má sjá í spilaranum hér að ofan.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.