Erlent

Baghdadi særðist alvarlega í árás í maí

Samúel Karl Ólason skrifar
Baghdadi í al-Nuri moskunni í Mosul árið 2014.
Baghdadi í al-Nuri moskunni í Mosul árið 2014. Vísir/AFP
Abu Bakr al-Baghdadi, leiðtogi Íslamska ríkisins, særðist alvarlega í maí í fyrra og þurfti að láta af stjórn hryðjuverkasamtakanna um mánaða skeið. Hann er nú sagður vera í Sýrlandi, við landamæri Írak, og í slæmu ástandi bæði líkamlega og andlega.

Abu Ali al-Basri, yfirmaður leyniþjónustu Írak, hélt þessu fram í morgun og sagði yfirvöld Írak hafa sterkar heimildir fyrir ástandi Baghdadi. Þær byggðu á yfirheyrslum yfir fönguðum ISIS-liðum og frásögnum flóttafólks á svæðinu.



CNN hefur þetta einnig eftir heimildarmönnum sínum innan leyniþjónustusamfélags Bandaríkjanna. Talið er að Baghdadi hafi særst í loftárás nærri Raqqa en ekki er vitað hver gerði umrædda árás. Á þeim tíma voru sýrlenskir Kúrdar og bandamenn þeirra að umkringja Raqqa sem var nokkurs konar höfuðborg kalífadæmis Íslamska ríkisins. Þær aðgerðir voru studdar af Bandaríkjunum.



Meiðsl Baghdadi voru ekki sögð vera lífshættuleg en þau voru þó það slæm að hann gat ekki stjórnað samtökunum sjálfur í allt að fimm mánuði. Þá mun hann ekki geta gengið án aðstoðar vegna fótbrota. Auk þess er hann sagður glíma við sykursýki.

Baghdadi hefur aðeins einu sinni komið fram opinberlega en það var í al-Nuri moskunni í Mosul í júlí 2014, þar sem hann lýsti yfir stofnun kalífadæmisins. Síðan þá hefur írakski herinn og sveitir hliðhollar yfirvöldum í Baghdad rekið ISIS-liða frá Mosul. ISIS-liðar sprengdu hina fornu mosku þó í loft upp áður en þeir yfirgáfu svæðið.



Þá hefur Baghdadi einungis sent frá sér hljóðupptökur síðan og þá síðustu í september. Þá reyndi hann að stappa stálinu í vígamenn sína sem voru á undanhaldi á öllum vígstöðvum í Írak og Sýrlandi.



Síðan þá hafa samtökin tapað nánast öllu umráðasvæði sínu nema í Efratdalnum í Sýrlandi og í eyðimörkinni við landamæri Írak og Sýrlands. Talið er að Baghdadi sé í felum þar en um stórt og strjálbýlt svæði er að ræða svo erfitt er að finna hann.


Tengdar fréttir

Komið að endalokum kalífadæmisins

Íslamska ríkið gefur eftir á öllum vígstöðum og setið er um höfuðvígi þeirra í Sýrlandi. Munu samtökin þurkast út með kalífadæminu, eða munu þau færast aftur yfir í skuggana?

Herja nú á ISIS í eyðimörkinn

Írakski herinn og sveitir sjálfboðaliða hafa nú hafið sókn gegn Íslamska ríkinu í strábýlli eyðimörk Írak.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×