Erlent

Næst­ráðandi Oxfam hættir vegna vændisskan­dals

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Frá einni af starfsstöð Oxfam á Haítí árið 2011.
Frá einni af starfsstöð Oxfam á Haítí árið 2011. vísir/getty
Penny Lawrence, næstráðandi hjá Oxfam, einum stærstu góðgerðarsamtökum Bretlands, hefur sagt starf sínu lausu í kjölfarið á skandal sem kominn er upp innan samtakanna.

Vísir fjallaði fyrr í dag ítarlega um málið en skandallinn snýr meðal annars að kaupum starfsmanna Oxfam á vændi á Haítí þegar þeir voru þar að störfum fyrir samtökin eftir jarðskjálftann 2010. Er meðal annars talið að starfsmennirnir hafi nýtt sér barnungar stúlkur en vændi er ólöglegt á Haítí.

Að því er segir í frétt Guardian er ekki aðeins um að ræða atvik á Haítí heldur einnig í Chad. Lawrence var yfir alþjóðlegum verkefnum Oxfam þegar fregnir bárust til stjórnenda um óviðeigandi hegðun starfsmanna samtakanna í löndunum tveimur en ekki var brugðist við á viðeigandi hátt.

Þannig bárust tilkynningar um Roland van Hauwermeiren, svæðisstjóra Oxfam á Haítí, til samtakanna á meðan hann starfaði í Chad og áður en hann fór til starfa á Haítí.

Stjórnandi Oxfam, Mark Goldring, segir að Lawrence hafi fundist sem skandallinn hafi orðið á hennar vakt og hún taki ábyrgð.

„Fleiri sögur hafa borist um helgina sem gefa til kynna að fólk hafi tilkynnt um hvað var í gangi á Haítí og í Chad án þess að brugðist hafi verið við á þeim tíma,“ segir Goldring.

Uppsögn Lawrence kom eftir fund stjórnenda Oxfam með Penny Mordaunt, ráðherra þróunarmála, vegna skandalsins en samtökin fá milljarða á ári í fjárframlög frá ríkinu. Hefur ráðherrann varað samtökin við því að þau fái ekki frekari fjárframlög bregðist þau ekki rétt við nú. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×