Bíó og sjónvarp

Sony biðst afsökunar á umdeildu atriði í mynd um Pétur kanínu

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Margir kannast eflaust við Pétur kanínu úr barnabókum Beatrix Potter.
Margir kannast eflaust við Pétur kanínu úr barnabókum Beatrix Potter. Skjáskot

Framleiðendur nýrrar teiknimyndar um ævintýri Péturs kanínu hafa gefið frá sér opinbera afsökunarbeiðni vegna atriðis í myndarinnar sem þykir gera lítið úr fæðuofnæmi. 

Myndin er byggð á Sögunni um Pétur kanínu eftir Beatrix Potter þar sem Pétur og vinir hans heyja harða baráttu gegn bóndanum Tom McGregor. Í atriðinu umdeilda ráðast Pétur og félagar á McGregor vopnaðir ýmsum berjum, ávöxtum og grænmeti, meðal annars brómberjum. Eitt berjanna fer upp í McGregor og fær hann í kjölfarið ofnæmiskast

Atriðið vakti harkaleg viðbrögð ýmissa hagsmunasamtaka og þegar þetta er skrifað hafa rúmlega 10 þúsund manns lagt nafn sitt við undirskriftalista þar sem þess er krafist að Sony, sem framleiddi myndina, biðjist afsökunar.

„Brandarar um fæðuofnæmi eru skaðlegir samfélaginu okkar,“ sagði í viðvörun frá samtökum barna með fæðuofnæmi, dótturfélagi astma- og ofnæmissamtaka bandaríkjanna.

„Í ofnæmiskasti þurfa sjúklingar lyfið epinephrine til að bjarga lífi sínu og þurfa að fara á næsta sjúkrahús í eftirfylgni. Sá raunverulegi ótti og kvíði sem fólk upplifir í ofnæmiskasti er alvarlegt mál.“

Sony Pictures sendi svo frá sér yfirlýsingu á sunnudag þar sem það hefði verið rangt að halda atriðinu í myndinni, jafnvel þó að um teiknimynd og grín væri að ræða.

„Við hörmum það mjög að hafa ekki verið meðvitaðri um þetta málefni og við biðjum stinnilega afsökunar,“ sagði í yfirlýsingunni.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.