Innlent

Miklar líkur á dimmri snjó­komu í morgun­um­ferðinni

Birgir Olgeirsson skrifar
Varað við lægð sem gengur norðvestur yfir landið á morgun.
Varað við lægð sem gengur norðvestur yfir landið á morgun. Vísir/Hanna

Akstursskilyrði verða víða erfið í dag, ekki síst á höfuðborgarsvæðinu þar sem él, skafrenningur og snjókoma munu torvelda akstur. Gular viðvaranir eru í gildi fyrir allt landið, að frátöldu hálendinu og Breiðafirði.

Ökumenn um allt land ættu því að flýta sér hægt núna í morgunsárið og þá sérstaklega á landsbyggðinni þar sem Veðurstofan gerir ráð fyrir samgöngutruflunum í dag. Vindhraðinn verður að jafnaði á bilinu 15 til 23 m/s í dag og verður víða vægt frost en það gæti haldist frostlaust allra austast á landinu.

Þetta kemur fram í ábendingu frá veðurfræðingi Vegagerðarinnar sem segir útlit fyrir talsverða snjókomu Suðaustanlands, frá Vík og austur á firði. Veðurstofa Íslands hefur varað við þeirri lægð sem fer norðvestur yfir landið í dag með hvassviðri eða snjókomu víða.

Líkur eru á muggu, snjókomu í logni, á Vestfjörðum í morgunsárið en vaxandi skafrenningi etir því sem líður á daginn.

Sem fyrr segir er útlit fyrir mikla snjókomu suðvestanlands á milli klukkan sex og níu í dag. 

Veðurhorfur á landinu næstu daga:

Á miðvikudag:
Austan 15-23 m/s, en 23-30 syðst. Lægir eftir hádegi, fyrst með suðurströndinni, allvíða austan 8-15 undir kvöld. Snjókoma eða slydda, einkum á austurhelmingi landsins, en rigning með austurströndinni. Hlýnar í veðri, hiti kringum frostmark síðdegis.

Á fimmtudag:
Austlæg átt 3-10, en norðaustan 10-15 á Vestfjörðum. Yfirleitt þurrt á Vesturlandi, annars dálítil él. Víða frostlaust við ströndina, en vægt frost til landsins.

Á föstudag og laugardag:
Suðvestan 8-13 m/s og él, en hægari vindur og bjartviðri á Norður- og Austurlandi. Hiti rétt ofan frostmarks við suður- og vesturströndina, annars frost 1 til 7 stig.

Á sunnudag:
Hæglætisveður og þurrt framan af degi og frost um allt land. Gengur í hvassa suðaustanátt seinnipartinn með snjókomu eða slyddu og síðar rigningu sunnan- og vestanlands. Hlýnar í veðri.

Á mánudag:
Snýst í suðvestanátt með slydduéljum eða éljum, en léttir til fyrir norðan og austan. Kólnar smám saman.

Fréttin var uppfærð kl. 6:15, 13. febrúar.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.