Innlent

Ók af vettvangi eftir að hafa ekið á stúlku á Suðurlandsbraut

Birgir Olgeirsson skrifar
Vísir/Pjetur

„Mér fannst þetta svívirðilegt að keyra frá vettvangi,“ segir blaðamaðurinn Kristinn Hrafnsson í samtali við Vísi. Kristinn greinir frá því á Facebook-síðu sinni hvernig ökumaður stakk af frá vettvangi eftir að hafa ekið á unga stúlku á móts við Suðurlandsbraut 18 í Reykjavík klukkan sex í dag.

Kristinn varð sjálfur ekki vitni að því þegar ekið var á stúlkuna en kom þar að skömmu síðar. Nokkur vitni eru þó að þessu atviki sem gátu gefið lögreglu upplýsingar. Kristinn segir í samtali við Vísi að stúlkan sé á að giska um 11 – 12 ára gömul.

Kristinn hlúði að stúlkunni þar til sjúkraflutningamenn komu á vettvang. Hann segir stúlkuna hafa verið mögulega brotna en virtist ekki alvarlega slösuð.

Kristinn Hrafnsson hlúði að stúlkunni. Vísir

Í Facebook-færslunni segir Kristinn að stúlkan hafi fengið högg á höfuðið, blæddi lítils háttar og var marin.

Í færslunni beinir hann orðum sínum að ökumanninum og vonast til þess að hann gefi sig fram.

„Svona gerir maður ekki. Bara alls ekki. Ég vona að vitnin að slysinu geti gefið nægjanlegar upplýsingar um þig og ökutækið til að lögreglan hafi upp á þér. Ég skora samt á þig að hafa manndóm í þér til að gefa þig fram. Það mildar sök. Ef þú gerir það ekki ætla ég að vona að myndin af stúlkubarninu á flugi undan högginu frá þér muni verða það sem þú sjáir fyrir hugskotssjónum þegar þú leggur höfuð á koddann, á hverju einasta kvöldi það sem þú átt eftir ólifað,“ segir Kristinn.

Vísir reyndi að ná á lögreglu við vinnslu þessarar fréttar en ekki var hægt að fá upplýsingar um málið að svo stöddu. Ekki liggur því fyrir þegar þetta er ritað hvort ökumaðurinn hafi gefið sig fram.

Færslu Kristins í heild má lesa hér fyrir neðan: Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.