Innlent

Yfirmaður kynferðisbrotadeildar tjáir sig ekki um framtíð sína

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Árni Þór Sigmundsson, yfirmaður kynferðisbrotadeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Árni Þór Sigmundsson, yfirmaður kynferðisbrotadeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. VÍSIR/EYÞÓR
 „Ég hef ósköp einföld viðbrögð. Ég ætla ekki að tjá mig nokkurn skapaðan hlut um hana,“ segir Árni Þór Sigmundsson, yfirmaður kynferðisbrotadeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Niðurstöður skoðunar lögreglunnar á því hvað gæti hafa farið úrskeiðis er dróst að hefja rannsókn á ætluðum kynferðisbrotum karls, sem starfaði hjá Barnavernd Reykjavíkur, voru kynntar í fyrradag.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur lokið ítarlegri skoðun á því hvað kunni að hafa farið úrskeiðis þegar dróst á langinn að hefja rannsókn á ætluðum kynferðisbrotum karlmanns, sem tilkynnt var um í sumarlok 2017.

Niðurstaðan er meðal annars að frumgreining málsins hafi ekki verið í samræmi við almennt vinnulag. Einnig þykir sýnt að stjórnun kynferðisbrotadeildar hafi ekki verið með nægjanlega markvissum hætti og því verði að breyta.

Árni Þór vill ekkert tjá sig um það hvort hann sækist eftir því að leiða deildina áfram. „Þetta er eitt af því sem ég ætla ekki að tjá mig um núna.“

Halldóra Dröfn Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri Barnaverndar Reykjavíkur, þakkar lögreglu fyrir sína vinnu en vill ekki tjá sig efnislega um skýrsluna.

„Þar sem stendur nú yfir innri úttekt á okkar aðkomu að þessu máli held ég að okkar skoðanir á þessu verði bara aðeins að fá að vera í hléi þangað til það er búið.“

Tilefni rannsóknarinnar er meðal annars það að einstaklingur tilkynnti Barnavernd Reykjavíkur nýlega að hún hefði gert Barnaverndinni viðvart um manninn árið 2008.

Skráning um tilkynninguna finnst ekki í bókum Barnaverndar.




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×