Innlent

Óvissustig við Súðavík vegna snjóflóðahættu

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Ökumenn sem eiga leið til og frá Súðavík ættu að hafa varann á.
Ökumenn sem eiga leið til og frá Súðavík ættu að hafa varann á. VÍSIR/STEFÁN
Óvissustigi hefur verið lýst yfir við Súðavíkurhlíð í dag vegna snjóflóðahættu. Þrátt fyrir það er leiðin opin að sögn Vegagerðarinnar en rétt að ökumenn sem eiga leið um hlíðina hafi varann á.

Mikil hætta er talin á snjóflóðum á norðanverðum Vestfjörðum þar sem hvassviðri hefur safnað snjó í háa skafla, hlémegin í landi og giljum. Veðurstofan hefur gert stöðugleikaprófanir á svæðinu sem gefið hafa mismunandi niðurstöður. Því þurfi að gera ráð fyrir að eldri snjór sé óstöðugur sumstaðar á þessum slóðum.

Talið er að nýr snjór sem fellur í dag og á morgun geti einnig verið óstöðugur þar sem hann safnast í skafrenningi. Snjóflóð sem féll yfir veg í Bjarnadal í Önundarfirði í liðinni viku sýnir að stöðugleiki í eldri snjónum er ekki alls staðar góður að mati Veðurstofunnar.

Færðin á öðrum vegum landsins er eftirfarandi:

Á Suðvestur- og Suðurlandi er hálka og snjóþekja á flestum leiðum. Þæfingur er á Kjósarskarðsvegi.

Á Vesturlandi er snjóþekja og hálka víðast Ófært er út fyrir nes.

Á Vestfjörðum er snjóþekja, hálka eða þæfingur og þungfært. Fjallvegir á sunnanverðum Vestfjörðum eru ófærir en unnið að mokstri. Nánari fréttir af færð á Vestfjörðum koma svo með morgninum.

Á Norðurlandi er hálka, snjóþekja. Þungfært og skafrenningur er á Mývatns- og Möðrudalsöræfum.

Á Austurlandi er hálka eða snjóþekja og snjókoma. Þæfingsfærð er á Fjarðarheiði. Ófært er á Vatnsskarði eystra. Hálka eða krapi er frá Egilsstöðum og með ströndinni að Vík.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×