Bíó og sjónvarp

Three Billboards Outside Ebbing, Missouri sigurvegari BAFTA-verðlaunahátíðarinnar

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Aðstandendur kvikmyndarinnar Three Billboards Outside Ebbing, Missouri hafa ríka ástæðu til að fagna í kvöld.
Aðstandendur kvikmyndarinnar Three Billboards Outside Ebbing, Missouri hafa ríka ástæðu til að fagna í kvöld. Vísir/AFP

Kvikmyndin Three Billboards Outside Ebbing, Missouri hlaut flest verðlaun á BAFTA-verðlaunahátíðinni sem haldin var í London í kvöld. Myndin hlaut fimm verðlaun, þar á meðal sem besta kvikmynd.

Þá var Frances McDormand valin besta leikkona í aðalhlutverki fyrir leik sinn í myndinni og Sam Rockwell, meðleikari McDormand, hlaut BAFTA-styttuna fyrir leik í aukahlutverki.

Gary Oldman var valinn besti leikari í aðalhlutverki fyrir túlkun sína á Winston Churchill í kvikmyndinni The Darkest Hour og Allison Janney var valin besta leikkona í aukahlutverki fyrir leik sinn í kvikmyndinni I, Tonya.

Þá var Guillermo del Toro valinn besti leikstjórinn en hann leikstýrði kvikmyndinni The Shape of Water sem fékk næstflest verðlaun kvöldins, þrjú talsins.

Listann yfir alla sigurvegara kvöldsins má nálgast hér.

Bandaríska leikkonan Angelina Jolie ásamt baráttukonunni Loung Ung. Vísir/AFP

Baráttan gegn kynferðisofbeldi í kvikmyndaiðnaðinum setti svip sinn á verðlaunahátíðina, eins og aðrar verðlaunahátíðir síðustu misseri. Leikarar og aðrir í bransanum tóku gesti Golden Globe-verðlaunahátíðina sér til fyrirmyndar og klæddust svörtu á rauða dregli kvöldsins.

Í dag sendu 190 breskar leikkonur frá sér opið bréf þar sem þær kölluðu eftir því að kynferðisleg áreitni heyri sögunni til. Þær lýstu yfir stuðningi yfir Time‘s Up-hreyfinguna, sem hefur notið mikils stuðnings í Bandaríkjunum, og tóku margar með sér baráttukonur á rauða dregilinn í stað maka.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.