Erlent

190 breskar leikkonur krefjast breytinga: „Kynferðisleg áreitni var óþægilegur brandari“

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Meðal þeirra sem skrifa undir bréfið eru Saoirse Ronan, Naome Harris, Emma Watson, Claire Foy, Kate Winslet, Emilia Clarke, Emma Thompson, Keira Knightley og Thandie Newton.
Meðal þeirra sem skrifa undir bréfið eru Saoirse Ronan, Naome Harris, Emma Watson, Claire Foy, Kate Winslet, Emilia Clarke, Emma Thompson, Keira Knightley og Thandie Newton. Vísir/EPA/AFP
190 breskar leikkonur hafa skrifað undir opið bréf þar sem þær kalla eftir að kynferðisleg áreitni heyri sögunni til. Þar lýsa þær yfir stuðningi við Time‘s Up hreyfinguna sem hefur fengið góðan meðbyr í Bandaríkjunum. Þær kalla eftir fjárframlögum svo fjármagna megi baráttu gegn óréttlæti.

„Í mjög nálægri fortíð bjuggum við í heimi þar sem kynferðisleg áreitni var óþægilegur brandari, óhjákvæmilegur og vandræðalegur hluti af því að vera stelpa eða kona. Það mátti sannarlega ekki ræða það, hvað þá takast á við það. Arið 2018 virðumst við hafa vaknað til lífs í heimi sem er tilbúinn fyrir breytingar. Ef við fögnum þessu augnabliki getur lína í sandinum orðið að steini,“ segir í bréfinu.

Konurnar sem skrifa undir bréfið hafa stofnað Réttlætis- og Jafnréttissjóð Bretlands til að fjármagna ráðgjöf fyrir þolendur.

Gaf 141 milljón

Leikkonan Emma Watson, hefur þegar gefið eina milljón punda til sjóðsins, eða sem nemur 141 milljón íslenskra króna. Þá hafa Keira Knightley og Tom Hiddleston styrkt sjóðinn um 10 þúsund pund hvort, eða 1,4 milljónir króna.

BAFTA verðlaunin verða afhent í London í kvöld við hátíðlega athöfn og ætla leikarar og baráttufólk að taka gesti Golden Globe verðlaunanna sér til fyrirmyndar og klæðast svörtu á rauða dreglinum.

„Þegar við nálgumst Bafta verðlaunin, sem er tími fagnaðar og viðurkenningar í okkar bransa, vonum við að við getum fagnað þessu magnaða augnabliki samstöðu með því að taka höndum saman og gera þessa hreyfingu alþjóðlega.“

Margar þeirra leikkvenna sem ganga rauða dregilinn í London í kvöld munu bjóða baráttukonum að ganga með sér, í stað maka.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×