Skoðun

Ragnar Þór Ingólfsson á heimavelli

Ingibjörg Ósk Birgisdóttir skrifar
Fyrir rúmu ári vann Ragnar Þór Ingólfsson öruggan sigur í formannskjöri hjá VR, hlaut 3.480 atkvæði. Sá glæsilegi kosningasigur hefur stigið honum illilega til höfuðs. Áður en að þeim sigri kom hafði Ragnar leitað fyrir sér í ýmsum hagsmunasamtökum og pólitískum samtökum. Hann reyndi meðal annars að komast á Alþingi af framboðslista hjá stjórnmálasamtökunum Dögun en hafði ekki árangur sem erfiði. Og áður hafði hann tvisvar sinnum boðið fram krafta sína til forystu á þingi ASÍ en þurfti að játa sig sigraðan.

Þetta ár sem Ragnar hefur gegnt formennsku í VR hefur því miður í alltof miklum mæli einkennst af sérkennilegri þráhyggju hans gagnvart ASÍ. Það er einsog ekkert verulegt annað geti í rauninni komist að.

Eitt af því sem sætir furðu í framgöngu formanns VR, stærsta stéttarfélags landsins, með um 36.000 félagsmenn, er að honum þykir það eiginlega ískyggilegt hversu útbreidd stéttarfélagsaðild er hér á landi. Og hann sér eftir þeim peningum sem fara í réttinda- og samtryggingarsjóði launafólks. Hann segir í ræðu:

„Við erum með yfir 90% stéttarfélagsaðild á Íslandi, meira en nokkurs staðar hlutfallslega í heiminum … Og hvernig stendur á því að þetta er svona? Jú, þetta er orðið svo risastórt batterí, þetta er orðið hálfgert skrímsli sem við erum með í höndunum, sem heitir Verkalýðshreyfingin. Og afhverju kalla ég þetta skrímsli? Þetta er orðið peningalegt stórveldi. Hvatinn fyrir verkalýðshreyfinguna er alltaf að stækka sig inn á við, hún er komin og hefur verið í ansi mörg ár í samkeppni við ríki og sveitarfélög um alltaf hærra og hærra hlutfall af launaveltu almennings. Með því að byggja upp sjóðakerfin, eins og lífeyrissjóðskerfi sem er langstærst, við erum með nýjasta sjóðinn, er endurhæfingarsjóður sem að bjó síðan til apparat sem heitir Virk starfsendurhæfing.“

Ragnar hefur þann leiða sið að saka forystufólk í launþegahreyfingunni sí og æ um svik og segir það vinna gegn hagsmunum félagsmanna. Það mætti halda af orðum hans að ASÍ eitt og sér ákvarði kjör launafólks. Atvinnurekendur eða stjórnvöld nefnir hann sjaldnar á nafn.

Undir þessari sérkennilegu orðræðu formannsins hafa aðildarfélög ASÍ og stjórn VR setið furðu róleg og þögul. Að vísu getur verið að margir veigri sér við að andmæla Ragnari vegna þess hversu illa hann þolir andstæð sjónarmið og er ófyrirleitinn. Nýverið sagði hann til dæmis í ræðu um félaga sína í stjórn VR:

„Nú er stjórnarkjör í VR í mars, þar þyrfti nú heldur betur að sópa til. Þannig að ég skora á ykkur.“

Í formannstíð sinni hefur Ragnar nokkrum sinnum notað Sósíalistaflokkinn sem vettvang sinn, sem er kannski eðlilegt um mann sem er lítið gefinn fyrir almenna samstöðu launafólks. Í nýlegri ræðu hjá þeim flokki, sem áður hefur verið vitnað til hér að framan, kom skýrt fram hvar formaður VR telur sig helst eiga heima:

„Góðan daginn, takk fyrir að bjóða mér á Sósíalistaþingið og hérna ég verð nú bara segja það strax að mér líður vel að koma í þennan félagsskap, hann á ákaflega vel við það sem ég stend fyrir þannig að maður er svona á heimavelli. Það er alltaf gott og betra að vera á heimavelli en á útivelli einsog á ársfundum lífeyrissjóða og svoleiðis, ASÍ-þingi.“

Höfundur situr í stjórn VR og er 2. varaforseti ASÍ




Skoðun

Sjá meira


×