Umfjöllun og viðtöl: ÍR - Valur 27-30 | Valsmenn héldu haus og náðu í sigur

Þór Símon Hafþórsson skrifar
Snorri Steinn Guðjónsson er kominn af stað með Val.
Snorri Steinn Guðjónsson er kominn af stað með Val. Vísir/Anton
ÍR og Valur mættust í Austurberginu í kvöld í Olís deild karla í hörkuleik. Leikurinn var hnífjafn framan af leik en ÍR-ingar byrjuðu betur og komust í þriggja marka forskot, 8-5, en þá komu Valsmenn sterkir til baka og lokuðu á ÍR-inga í góðar átta mínútur og náðu þriggja marka forskoti, 8-11.

Staðan í hálfleik var 14-15, Val í vil, og ljóst að spennandi seinni hálfleikur var framundan.

Liðin skiptust á að skora en á lokamínútum leiksins gerði ÍR sig seka um nokkur slæm mistök og mistu Valsmenn of langt frá sér. Lokatölur leiksins, 27-30, Val í vil sem vippa sér uppfyrir Selfyssinga í 3. sæti deildarinnar. ÍR í 7. sæti á sama tíma með 15 stig.

Afhverju vann Valur?

Valsmenn voru seigari en heimamenn og þeim stundum sem töldu hvað mest. Þrátt fyrir að fá sjö af tíu brottvísum leiksins náði Valur alltaf að standa í ÍR-ingum og nýttu sér að lokum nokkur dýr mistök ÍR-inga til að taka leikinn gjörsamlega úr greipum Breiðhyltinga.

Hverjir stóðu upp úr? 

Magnús Óli Magnússon var magnaður í leiknum og skoraði sjö mörk og það úr einungis átta skotum. Hann steig upp á lokametrunum og virtist alltaf finna leið til þess að koma boltanum í netið.

Markmennirnir áttu ólíka sögu en Grétar Ari byrjaði frábærlega í marki ÍR en náði svo ekki að viðhalda því og var að lokum með 27% vörslu en hún fór hratt niður á við á lokametrunum er Valsmenn léku á alls oddi.

Sigurður Ingiberg byrjaði hinsvegar afleitlega og var skipt útaf í fyrri hálfleik er ÍR-ingar höfðu skorað úr öllum átta skotum sínum á markið. Hann kom svo tvíelfdur til leiks eftir hlé og var frábær undir restina.

Miðað við afleita byrjun var 25% markvarsla hans bara ansi góð en hann varði sjö af síðustu 20 skotum sem hann fékk á sig.

Hvað gekk illa?

ÍR fékk einungis þrjár brottvísanir í leiknum sem er hið besta mál en á sama tíma fengu Valsmenn sjö brottvísanir og það að ÍR hafi ekki náð að nýta mismuninn betur er stór ástæða fyrir því að liðið fer af velli með 0 stig eftir átök kvöldsins.

Hvað gerist næst?

ÍR mætir Selfyssingum í Austurberginu en Valur mætir Haukum í Schenkerhöllinni í Coca-Cola bikarnum.

Bjarni Fritzs: Ég er ekkert reiður

„Drullusvekktur,“ voru fyrstu viðbrögð Bjarna Fritzson, þjálfara ÍR eftir tap hans manna gegn Val í Austurberginu í kvöld.

„Mér fannst þeir meiri sigurvegarar. Þegar það var allt í járnum þá ná þeir að skora á meðan við gerum tvo risa mistök,“ sagði Bjarni en leikurinn var hnífjafn fram á lokamínútum leiksins þegar ÍR-ingar klikkuðu á hraðupphlaupi og víti.

„Þeir stóðu vörnina mjög vel og voru með nokkra leikmenn sem tóku sterkar ákvarðanir sem skiluðu þeim mörkum á meðan við náðum því ekki alveg jafn vel,“ sagði Bjarni en hann telur að heilt yfir hafi hans menn spilað mjög góðan handbolta.

„Ég er ekkert reiður. Þetta var fínn leikur hjá okkur heilt yfir.“

Magnús Óli: Hart barist en við börðumst meira

Magnús Óli Magnússon átti frábæran leik í búningi Val í kvöld er hann skoraði sjö mörk úr átta skotum.

„Við byrjum eftir áramót með tapi og keyrðum okkur í gang hérna og það er gott að fá tvö stig í hús,“ sagði Magnús og bætti við að honum hefði fundist gaman að spila í leik þar sem jafn hart var barist og rauninn var í kvöld.

„Þetta var jafn leikur allann leikinn. Það börðust allir eins og ljón en við börðumst bara aðeins meira og það skilaði sigri.“

Dagur Sigurðsson taldi á dögunum í þættinum Seinni Bylgjan á Stöð2Sport að augljóst væri að dómarar væru að taka þéttara á Valsmönnum en öðrum liðum. Valur fékk í kvöld sjö brottvísanir gegn einungis þremur hjá ÍR. Magnús gefur lítið fyrir það.

„Ég veit ekkert um það. Sumir dómarar dæma eitt og aðrir hitt. Ég er ekkert að hugsa um dómaranna.“

Daníel Ingi: Skítur skeður

Daníel Ingi var gríðarlega svekktur eftir að hann og samherjar hans í ÍR töpuðu á heimavelli gegn Val, 30-27.

„Já þetta er gríðarlega svekkjandi tap. Vorum að spila vel og héldum vörninni vel. Við klúðrum þessu svo. Á síðustu fjóru mínútum klikka ég tvisvar. Missi boltann í hraðupphlaupi og klikka á víti.“

Aðspurður hvort að taugarnar hefðu klikkað var hann ekki á því.

„Nei alls ekki. Við verðum bara að taka betri ákvarðanir.“

Næsti leikur ÍR í deildinni er gegn Selfyssingum og segir hann að þeir mæti tvíefldir til baka í þann leik.

„Við erum þéttur hópur og við rífum okkur upp úr þessu. Skítur skeður. Bara næsti leikur og áfram gakk.“

Guðlaugur: Sumir fá harðari refsingu fyrir minni brot

Guðlaugur Arnarsson, þjálfari Valsmanna, var að vonum sáttur eftir að hans menn unnu sinn sjöunda útileik á tímabilinu í deildinni af sjö mögulegum.

„Ég er bara gríðarlega ánægður að koma á erfiðan útivöll og vinna í frábærum handboltaleik.“

Hann tók undir með öllum viðmælendum eftir leik að um hafi verið að ræða hnífjafnan leik.

„Við skorum þrjú mörk þegar það er varla ein mínúta eftir. Þetta var bara stál í stál allan leikinn. Virkilega erfiður leikur á erfiðum útivelli og þakklátur fyrir þessi stig.“

Hann var tilbúinn að taka undir ummæli Dag Sigurðssonar í þættinum Seinni Bylgjan á Stöð2Sport en þó bara að sumu leyti.

„Ég er sammála að vissu leyti. Það eru sumir leikmenn hjá mér sem fá harðari refsingar fyrir minni brot en við erum líka inn á milli mjög fastir fyrir og við viljum vera það,“ en Dagur hélt því fram að dómarar væru búnir að taka sig saman um að taka fastar á föstum leik Valsmanna.

„Á meðan við erum reknir útaf fyrir sanngjörn brot þá er þetta allt í lagi.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira