Körfubolti

Frábær þriðji leikhluti skilaði Keflavík og Val sigri

Embla, hér í leik gegn Njarðvík, var með tólf stig og sjö fráköst í leiknum í dag.
Embla, hér í leik gegn Njarðvík, var með tólf stig og sjö fráköst í leiknum í dag. Vísir/Vilhelm
Keflavík vann 29 stiga sigur á Skallagrím 98-69 í Dominos-deild kvenna en á sama tíma unnu Valskonur 22 stiga sigur 69-47 gegn Njarðvík.

Bæði liðin skelltu í lás í þriðja leikhluta í varnarleiknum og skilaði það sigrinum en með sigrinum ná Valskonur toppsætinu einar og sér en Keflavík og og Haukar deila 2-3. sæti, tveimur stigum eftir á en Haukar eiga þó leik til góða.

Í Keflavík var töluvert jafnræði með liðunum framan af og var munurinn aðeins fjögur stig í hálfleik, 44-40, heimaliðinu í vil.

Þá setti Keflavík í lás og vann þriðja leikhluta 33-8 og tók 29 stiga forskot inn í lokaleikhlutan en þrátt fyrir ágætis rispu Skallana ógnuðu þær ekki forskoti Keflavíkur.

Brittanny Dinkins var með þrefalda tvennu fyrir Keflavík í leiknum, 23 stig, 17 stoðsendingar og ellefu fráköst en Carmen Tyson-Thomas var atkvæðamest hjá gestunum með 28 stig.

Í Valsheimilinu tóku Valskonur á móti botnliði Njarðvíkur en það tók þær töluverðan tíma að hrista spræka Njarðvíkinga frá sér.

Munurinn var aðeins fimm stig í hálfleik en þær héldu Njarðvík í aðeins fjórum stigum í þriðja leikhluta og héldu þeim stigalausum í rúmlega tíu mínútur. Reyndist það gera út um leikinn.

Aalyah Whiteside var stigahæst hjá Valsliðinu með 22 stig, sex fráköst og sex stoðsendingar en Shalonda R. Winton bar af hjá Njarðvík með 23 stig og 16 fráköst ásamt því að stela sjö boltum en tapa honum tíu sinnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×