Körfubolti

Olnbogaskot Elliott kært til aganefndar KKÍ

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dominique Elliott.
Dominique Elliott. Vísir/Getty
Dominique Elliott, leikmaður karlaliðs Keflavíkur, hefur verið kærður til aga- og úrskurðanefndar KKÍ vegna framkomu sinnar í leik Keflavíkur og Þórs í Þorlákshöfn í Domino´s deild karla í körfubolta á föstudagskvöldið.

Dominique Elliott gaf þá Þórsaranum Davíð Arnari Ágústssyni olnbogaskot án þess að dómaraþríeykið tæki eftir því.

Dómaranefnd KKÍ skoðaði olnbogaskot Elliott og nú hefur verið tekin ákvörðun um að kæra það til aga- og úrskurðanefndar KKÍ. Guðbjörg Norðfjörð, formaður dómaranefndar KKÍ, staðfesti þetta við íþróttadeild.

Í tvígang hefur það gerst á undanförnum árum að KKÍ hefur dæmt leikmann í bann út frá myndbandsupptöku og þetta verður væntanlega þriðja atvikið.





David Sanders, þáverandi leikmaður Tindastóls, var dæmdur í sex leikja bann árið 2004 eftir að hafa slegið Sverri Þór Sverrisson, þáverandi leikmann Keflavíkur og núverandi þjálfara kvennaliðs Keflavíkur.

Þá fékk Junior Hairston tveggja leikja bann þegar hann gaf Agli Egilssyni, leikmanni Skallagríms, olnbogaskot árið 2014.

Dominique Elliott var þarna að spila sinn fimmta leik með Keflavíkurliðinu á tímabilinu en hann kom til liðsins um áramótin. Hann spilaði bara í rúmar 15 mínútur í leiknum en Keflavík mætti með annan bandaríska leikmann í Þorlákshöfn og spilaði Christian Dion Jones rúmar 24 mínútur í sínum fyrtsta leik.

Keflavíkurliðið verður því ekki án bandarísks leikmanns þó svo að Dominique Elliott verði dæmdur í leikbann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×