Skoðun

Það virkar vel að meta raunfærni fólks

Bryndís Þráinsdóttir skrifar
Við erum alltaf að læra. Á hverjum einasta degi söfnum við í sarpinn fjölbreyttri reynslu sem nýtist okkur bæði í leik og starfi. Lífsreynslu okkar fáum við í gegnum fjölskyldulíf, starfið okkar, tómstundir og úr námi, bæði formlegu og óformlegu. Þessi samanlagða reynsla okkar er kölluð raunfærni.

Mat á raunfærni fólks eða raunfærnimat, eins og það er oftast kallað, hefur verið þróað víða um heim á síðustu áratugum. Sjónum var fyrst beint að þessari leið í Bandaríkjunum en síðan hefur raunfærnimat verið tekið upp í Evrópulöndum og víðar. Að meta raunfærni fólks hefur verið þekkt á Íslandi frá því fljótlega upp úr aldamótunum og hefur reynslan verið góð.

Raunfærnimat er öflugt tæki til að staðfesta færni fólks

Í gegnum tíðina hefur alltaf ákveðinn fjöldi framhaldskólanemenda kosið að hætta í skóla og fara þess í stað út á vinnumarkaðinn. Af þessu leiðir að fjöldi fullorðinna hefur starfað svo árum skiptir innan sömu atvinnugreinar án þess að hafa lokið námi í viðkomandi grein. Sem dæmi má nefna iðngreinar eins og húsasmíði og pípulagnir. Reynslan og þekkingin sem þetta starfsfólk hefur aflað sér í gegnum árin er afar dýrmæt.

Fyrir fullorðið fólk, sem hefur til fjölda ára verið á vinnumarkaði, en kýs á einhverjum tímapunkti að sækja sér formlega menntun og staðfestingu á þekkingu sinni og hæfni í viðkomandi starfi, er raunfærnimat því gríðarlega öflugt tæki. Það hefur reynslan sýnt okkur, sem störfum innan fræðslu- og símenntunarmiðstöðvanna, að raunfærnimat styttir ekki aðeins leið fólks að settu marki heldur veitir því einnig sjálfstraust til að takast á við nýjar áskoranir þegar kemur að frekara námi eða framgangi í starfi. Aukið sjálfstraust einstaklinga er einnig mikilvægt fyrir samfélagið allt, því þegar öllu er á botninn hvolft styrkist staða viðkomandi starfsfólks á þeirra vinnustað, fleiri ná sér í formlega fagmenntun og þar með hækkar margumrætt menntunarstig á Íslandi. Í þessu sambandi er vert að taka fram að Fræðslusjóður leggur fram fé til raunfærnimats og það er því þátttakendum að kostnaðarlausu. Skilyrði fyrir þátttöku í raunfærnimati er að viðkomandi þátttakandi sé að lágmarki tuttugu og þriggja ára og hafi að baki þriggja ára staðfesta starfsreynslu í viðkomandi atvinnugrein.

Hjá fræðslu- og símenntunarmiðstöðvunum hefur byggst upp mikil reynsla undanfarin ár í raunfærnimati. Fyrir þann sem óskar eftir því að fara í raunfærnimat er fyrsta skrefið að setja sig í samband við náms- og starfsráðgjafa hjá viðkomandi stöð í sinni heimabyggð. Þá fer ákveðið formlegt ferli í gang sem í stórum dráttum felst í því að viðkomandi einstaklingur skráir þá raunfærni sem hann hefur öðlast í gegnum starf sitt, nám og frístundir. Hann þarf einnig að safna saman skjölum sem staðfesta fyrra nám og störf. Staðan er síðan greind og metin í samtali við matsaðila. Að lokum fær hann formlega vottun á því sem metið var. Náms- og starfsráðgjafi er innan handar á meðan á öllu ferlinu stendur.

Allur vinnumarkaðurinn er undir

Það er okkar reynsla að árangur af raunfærnimati skili sér vel þegar fyrirtæki taka virkan þátt í ferlinu, með því að hvetja starfsfólk sitt til að fara í raunfærnimat. Gott dæmi um þetta er til dæmis raunfærnimat á móti námskrá í fisktækni en þar hafa fyrirtæki innan sjávarútvegsins stutt vel við verkefnið.

Að loknu raunfærnimati þarf að vera til leið eða tækifæri til að viðkomandi einstaklingar geti lokið námi sínu og þar kemur að hlut framhaldsskólanna. Dæmi eru um að settar hafa verið upp námsbrautir á landsbyggðinni, einmitt til að viðkomandi einstaklingar geti lokið formlegu námi. Sem dæmi um þetta má nefna fisktækninám og námsbrautir fyrir slátrara. Því má segja að samstarf fræðslu- og símenntunarmiðstöðva, framhaldskólanna og atvinnulífsins sé mikilvægt þegar kemur að raunfærnimati.

Góð vísa er aldrei of oft kveðin. Þrátt fyrir að raunfærnimat hafi í meira en áratug verið í boði hér á landi er fjarri því að allir átti sig á þeim möguleika að fá reynslu og þekkingu sína metna til styttingar á námi. Það er því okkar, sem bjóðum upp á þennan valkost, að minna stöðugt á hann. Ég hvet stjórnendur fyrirtækja að vera einnig vel vakandi fyrir þessum möguleika fyrir sína starfsmenn. Samstarf og samvinna í þessum efnum er eins og í svo mörgu öðru lykilatriði.



Höfundur er framkvæmdastjóri Farskólans – miðstöðvar símenntunar á Norðurlandi vestra, sem á aðild að Kvasi - samtökum fræðslu- og símenntunarmiðstöðva.

 




Skoðun

Sjá meira


×